131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:46]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði ekki að hæstv. samgönguráðherra væri með allt niður um sig, það er rangt eftir mér haft. Ég sagði skýrt að hann þyrfti að gera grein fyrir því hvenær ráðast ætti í framkvæmdina á Sundabrautinni og hvaðan fjármagnið ætti að koma og hvort það væri yfir höfuð tryggt, því að við förum náttúrlega hvorki innri, ytri, efri eða neðri leið ef engir peningar eru til.

Það sem Reykjavíkurborg hefur sagt um legu Sundabrautar er einfaldlega það að sú leið sem farin er, hver sem hún verður, þarf að uppfylla tvö skilyrði. Hún má ekki ógna lífríki Elliðaánna, ég vona að hv. þingmaður taki undir það sjónarmið, og í öðru lagi þarf hún að liggja með stefnu beint hingað í miðborgina þannig að eðlilegasta aðkoman fyrir þá sem væru að koma til borgarinnar sé að keyra niður í bæ eftir Sæbrautinni því að hún tekur meiri umferð en Miklabrautin. Að því uppfylltu leggjum við þennan veg þegar peningarnir koma en fjármagnið er forsenda þeirra hluta sem gera skal.