131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:53]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara hv. þingmanni strax þá er fyrst varðandi lengingu flugbrautanna, eins og talað er um í áætluninni, á Egilsstöðum og Akureyri. Ég tel grundvallaratriði að settar verði upp viðskiptaáætlanir um fyrirhugaðar flugsamgöngur frá þessum flugvöllum áður en teknar eru ákvarðanir um fjárfestinguna. Það hefur sýnt sig að það hefur ekki verið einfalt eða auðvelt að fá flugfélög til þess að fljúga beint til Egilsstaða eða Akureyrar og þess vegna tel ég að ekki verði hægt að ráðast í þessar framkvæmdir fyrr en meira liggur fyrir um það. Ég tel eðlilegt og er reiðubúinn til að stuðla að því að slík úttekt verði gerð í samvinnu við heimamenn og ég veit að áhugi er fyrir því af hálfu heimamanna á Akureyri og ég hef lýst vilja mínum til þess að ganga í það verk. Þegar það liggur fyrir er hægt að taka næstu skrefin.

Hvað varðar Vaðlaheiðargöng þá er ég mjög ánægður með undirbúningsvinnu heimamanna í því máli. Þegar fyrir liggur niðurstaða af þeirri vinnu og staðfestur vilji félags um framgöngu í því máli tel ég eðlilegt að taka afstöðu til þess. Ef þær hugmyndir sem voru lauslega reifaðar við mig fyrir stuttu ná fram að ganga tel ég alveg einsýnt að innan tíðar verði gengið til samninga um það verk og það sett inn í samgönguáætlun við endurskoðun hennar þegar þar að kemur. Þetta er mjög áhugavert viðfangsefni og eins og heimamenn hafa lagt það upp tel ég mjög líklegt að (Forseti hringir.) á því yrði tekið með mjög jákvæðum hætti í þinginu.