131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:05]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar vil ég segja að ég held að hvergi nokkurs staðar sé lagt eitt og sér til grundvallar hvernig íbúar skiptast eftir landshlutum þegar teknar eru ákvarðanir um uppbyggingu samgöngumannvirkja. Við byggjum upp samgöngumannvirki okkar og ég held að það sé þannig alls staðar meðal annarra þjóða að menn eru að hugsa um hvernig þeir ætli að byggja upp nauðsynlegt samgöngukerfi til að nýta auðlindir landsins og til að tryggja flutninga til og frá vinnslustöðvum og byggðum bólum. Þetta er grundvallaratriði.

Ég tel að það sé gjörsamlega ófær forsenda sem eina forsendan að miða við íbúatölu (Forseti hringir.) þannig að ég tel að hv. þingmaður þurfi að gæta sín á því að gera ekki að aðalatriði íbúatölu á höfuðborgarsvæðinu við skiptingu fjármuna.