131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:07]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni ætla ég ekki að gera lítið úr því að samgöngur í hinum dreifðu byggðum séu mikilvægar. Ég hlýt hins vegar að geta þess að minni hluti fjármuna frá ríkinu rennur til samgöngumála, a.m.k. nýframkvæmda, hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur komið fram í þessari umræðu að á síðustu 10 árum hafi 80% af fjármunum til nýframkvæmda runnið til dreifbýlisins en á sama tíma horfum við til þess að 65% íbúa búa á þessu svæði, þ.e. 65% skattgreiðenda, þess fólks sem greiðir nú fyrir þetta allt saman.

Ég tel að við Reykvíkingar höfum sýnt ákveðið langlundargeð hvað landsbyggðina varðar þegar kemur að vegaframkvæmdum. Mér finnst eðlilegt að á næstu árum, (Forseti hringir.) og þá er ég að undirstrika fjárframlög til þessara mála, endurspeglist í tölu íbúa á þeim svæðum sem (Forseti hringir.) fjármunirnir renna til.