131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:11]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að ég held að völlurinn hljóti að fara úr Vatnsmýrinni og hef ég þá litið til þess að þegar að því kemur, eftir rúman áratug, hljóti menn að líta fyrst og fremst til þess að hann fari til Keflavíkur enda hægt að vænta þess að verulegar samgöngubætur hafi þá átt sér stað enda verði þá búið að tvöfalda brautina til Keflavíkur.

Það mætti kannski koma því að sem tillögu til að lægja óöldina í Sjálfstæðisflokknum, til að stilla saman strengi þar, að þeir sameinist um að flugvöllurinn fari til Keflavíkur en komi ekki upp hver á fætur öðrum stormandi gegn málflutningi hæstv. samgönguráðherra, bæði hvað varðar framlög til vegamála og staðsetningu flugvallarins. Legg ég það þá a.m.k. til að þegar flugvöllurinn fer, eftir rúman áratug, fari hann til Keflavíkur en menn eyði ekki hér dýrmætum tíma við fyrri umr. um samgönguáætlun í að deila um það innan Sjálfstæðisflokksins hvert hann eigi að fara, hvort hann eigi að vera hér eða þar eða áfram í Vatnsmýri, heldur sameinist um að flugvöllurinn fari til Keflavíkur þegar hann fer.