131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:16]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson telur það eðlilegt að landsbyggðin fái meira fé núna. Ég benti á að landsbyggðin hefur fengið meira fé á síðustu árum eða áratugum og kannski ástæða til þess að þeirri þróun verði, ja, kannski ekki snúið við heldur verði hlutföllin rétt við.

Ég er alveg tilbúinn til að fresta framkvæmdum við þessa samgöngumiðstöð. Ég er alveg tilbúinn til þess ef það verður þá til þess að hún verði færð úr Vatnsmýrinni. Ég set fram þá frómu og sanngjörnu kröfu (EOK: Ég stend með þér.) að þessi samgöngumiðstöð verði byggð einhvers staðar annars staðar og flugvellinum valinn staður annars staðar en þar sem Bretar ákváðu að setja hann niður fyrir 50 eða 60 árum. Borgarmyndin í Reykjavík hefur gjörbreyst frá því að flugvöllurinn var settur niður og nú er kominn tími til að menn taki stefnumarkandi ákvörðun í skipulagsmálum í Reykjavík og komi flugvellinum fyrir einhvers staðar annars staðar. Það er óeðlilegt að (Forseti hringir.) flugvöllurinn sé í göngufæri frá helstu verslunargötu í Reykjavík sem heitir Laugavegur. Það þekkist hvergi.