131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:21]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir það að Stór-Reykjavíkursvæðið er eflaust að stækka miðað við þá skilgreiningu sem ég er alinn upp við. Bættar samgöngur stækka það. Það má alveg halda því fram að Borgarnes og Akranes séu að nálgast þetta svæði og sömuleiðis Keflavík og Hveragerði og Selfoss, hvaðan hv. þingmaður kemur. Ég held að við séum alveg sammála um að við viljum efla samgöngukerfið og gæta þar bæði hagsmuna okkar umbjóðenda sem eru kjósendur í kjördæmum okkar — og það er það sem ég tel mig hafa verið að gera hér, ekki síst í umræðunni um Reykjavíkurflugvöll — og ekki síður varðandi það hvernig fjármunum hefur verið dreift milli kjördæmanna á síðustu áratugum.

Ég leyfi mér að segja það að með hliðsjón af því hverjir greiða þessa peninga í formi skattgreiðslna (Forseti hringir.) hefur sú skipting ekki verið sanngjörn.