131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:23]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur átt sér stað í dag er um margt merkileg og að hluta til nokkuð óvenjuleg varðandi fyrri umræður um samgönguáætlanir. Það er langur tími liðinn síðan við höfum orðið vör við jafnmikið, ef við getum orðað það svo, kjördæmapot. Hér hafa áherslur þingmanna af höfuðborgarsvæðinu verið nokkuð óvenjulegar. Ég man eiginlega ekki eftir því að þingmenn hafi komið svo tengdir kjördæmum sínum í umræðu eins og við höfum orðið vitni að hér í dag.

Hér hafa menn þvert á hina pólitísku flokka gengið fram í því að vekja sérstaka athygli á málefnum kjördæma sinna. Mig minnir að yfirleitt höfum við náð því í fyrri umr. um samgönguáætlun að ræða um hinar stóru línur og fjalla um það hvort út af fyrir sig væri rétt forgangsraðað í hin stærri verk og eins hvort nægilegt fjármagn væri til staðar. Nú bregður hins vegar svo við að nokkrir þingmenn af höfuðborgarsvæðinu ganga fram fyrir skjöldu og vekja sérstaka athygli á ákveðnum verkefnum á höfuðborgarsvæðinu, og ekki bara það, heldur telja að höfuðborgarsvæðið sé sérstaklega sniðgengið í þessari samgönguáætlun. Það er mjög áberandi að þar fara fremstir í flokki þingmenn úr flokki hæstv. samgönguráðherra.

Þetta vekur sérstaka undrun því að venjan hefur verið sú að þegar samgönguáætlun kemur til umræðu sé búið að ná a.m.k. þokkalegri sátt í ríkisstjórnarflokkunum um það hvernig skipt er á milli kjördæma. Og ég verð að segja, herra forseti, að það vekur alveg sérstaka athygli að á köflum ganga hv. þingmenn svo langt í að vekja athygli á því að það ætti jafnvel að færa fjármuni úr ákveðnum kjördæmum til eigin kjördæma.

Ég tek þess vegna undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni sem kom inn á það í umræðum í dag að þar sem menn sem telja að framkvæma þurfi meira en gert er ráð fyrir í áætluninni ættu þeir að sameinast um að auka fjármunina til þessa mikilvæga málaflokks. Allir hv. þingmenn vita að það er enginn skortur á verkefnum í samgöngumálum. Þar er af nægu að taka. Það er kannski þar sem við þurfum helst að taka á og við þurfum að auka fjármuni til þessa málaflokks og þess vegna er það alveg sérstakt umhugsunarefni og dapurlegt að hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu sem farið hefur til þessa málaflokks hafi lækkað svo mjög. Eins og fram hefur komið í umræðunni er þetta mál ekki bundið við það hvar menn búa hverju sinni. Þetta er jafnmikilvægt fyrir alla íbúa þessa lands. Þetta skiptir máli varðandi umferðaröryggi, gagnvart atvinnumálum og byggðamálum. Allt tengist þetta saman.

Það má segja að vandi okkar sé raunverulega enginn annar en sá að við höfum svo mörg verk að vinna að okkur nægir ekki fjármagnið til að gera það eins fljótt og við vildum líklega flest gera.

Það er hins vegar nauðsynlegt, svo að ég gleymi því ekki, að taka fram að í þessari áætlun er auðvitað margt afskaplega jákvætt. Það er ekki heldur hægt að ganga fram hjá því að á mörgum undanförnum árum höfum við unnið stórvirki í samgöngumálum. (KÓ: Heyr.) Hins vegar er ljóst að það má ekki láta deigan síga því að verkefnin eru svo gífurlega stór og mikilvæg að við verðum að láta þessi mál í ákveðinn forgang. Þau skipta, eins og ég sagði áðan, ekki bara máli fyrir þá íbúa sem búa á þeim svæðum þar sem vegir eru hvað verstir eða hættulegastir, heldur skipta þau máli fyrir okkur öll og þau tengjast öllum þáttum mannlífsins.

Eitt mál hefur vakið sérstaka athygli mína á undanförnum missirum, ekki bara í þessari umræðu heldur nú um nokkurra vikna, mánaða eða ára skeið. Það er umræðan um flugvöll í Reykjavík. Þar blandast augljóslega inn í aðstæður manna hvar þeir búa. Þess vegna hef ég sagt nokkrum sinnum að þetta mál er nokkuð sem menn eiga að setjast niður með og leysa. Þetta er ekki mál sem er svart eða hvítt, þ.e. að annaðhvort eigi flugvöllurinn að vera áfram í þeirri mynd sem hann er búinn að vera um nokkurt skeið eða að hann skuli bara fara, mér liggur við að segja á morgun. Þetta mál er miklu flóknara en svo.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég hélt að menn hefðu verið búnir að ná ákveðinni lendingu í málinu, þ.e. að það væri komin nokkuð farsæl lausn núna á milli borgaryfirvalda og samgönguyfirvalda um að fara yfir þetta mál frá a til ö, reisa samgöngumiðstöðina og kanna hvort ein flugbraut mundi duga eða ekki. Þetta hélt ég að væri eðlilegt skref til þess að reyna að ná sátt í málinu. Nú rísa hins vegar upp ýmsir þingmenn af þessu svæði og telja það af og frá.

Ég get út af fyrir sig líka tekið undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að það er sjálfsagt að standa með þingmönnum höfuðborgarsvæðisins í því að fresta hér framkvæmdum ef það er vilji hv. þingmanna, ef það liggur ekki svo á þessum framkvæmdum. En ég verð að segja það að við sem notum nokkuð flugstöðvarbygginguna við Reykjavíkurflugvöll gerum okkur fyllilega grein fyrir því að það mannvirki er barn síns tíma. Það er ekki í neinu samhengi við þá tíma sem við lifum og það er löngu kominn tími á að úr verði bætt.

Ég hef skilið það svo að þrátt fyrir að flugvöllurinn muni hugsanlega einhvern tíma fara úr Vatnsmýrinni muni samgöngumiðstöðin nýtast áfram, þrátt fyrir að hún verði ekki endilega flugstöðvarbygging. Ég verð að segja að ég á mjög erfitt með að skilja þær röksemdir að alls ekki megi byggja hana. En eins og ég segi, ef það er vilji þingmanna á þessu svæði að þessari framkvæmd verði frestað er hægt að nálgast það. Það er ekkert vandamál að koma þeim fjármunum í lóg. Nóg er af verkefnum sem bíða.

Það er líka nauðsynlegt — ég sé að nú er tíminn að renna frá mér — að taka undir það sem kom fram mjög skýrt í málflutningi hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þar sem hann vakti athygli á því að á kosningaárinu síðasta, þ.e. á árinu 2003, var veitt sérstaklega aukið fjármagn til samgöngumála. Það stóð þó eingöngu það ár og lifði varla árið þegar tilkynnt var að nú ætti að fresta þessu og fresta hinu. Það er augljóst mál að miðað við þær frestanir sem nú eru boðaðar er ekki verið að skila öllu því fjármagni sem gert var ráð fyrir á árunum 2004–2006 inn á árin 2007–2008. Það er eðlilegt að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi áhyggjur af því að ekki verði auðvelt að selja kjósendum í kjördæmi hans það að enn einu sinni eigi að fresta framkvæmdum fram á næsta kjörtímabil. Slík kosningaloforð er erfitt að nýta trekk í trekk þó að við höfum dæmi um það varðandi Héðinsfjarðargöngin. Það er loforð sem nýta skal hið þriðja sinn.