131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:35]

Einar Karl Haraldsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spyr aftur: Hvar voruð þið, þeir þingmenn sem vilja leita að nýjum leiðum, nýjum staðsetningum fyrir Reykjavíkurflugvöll í borgarlandinu, þegar þessi umræða fór fram? Allt það sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson nefndi um að hægt væri að kosta nýjan flugvöll í borgarlandinu með andvirði þess sem fengist fyrir landið og byggingarréttinn í Vatnsmýrinni hefur alltaf legið fyrir í þessari umræðu. Það er gott ef menn eru að vakna til þess núna.

Hins vegar held ég að málin hafi þróast þannig í Reykjavík að það náist seint samstaða um annað en að flugvöllurinn fari. Því miður held ég að sú staðreynd að menn voru ekki tilbúnir að fara í ítarlega og alvarlega umræðu um þetta á sínum tíma hafi leitt til þess að staðan er miklu læstari í dag og að ekki er um marga kosti aðra að ræða en að flugvöllurinn víki eins og starfsemi af þessu tagi víkur vegna þess að það er hagkvæmara að nýta landið til annarra hluta og að flugvallarstarfsemin flytjist smám saman til Keflavíkurflugvallar. Ég held að kostirnir séu ekki aðrir í þessari stöðu. Ég held að tilraunir hæstv. samgönguráðherra til að halda því til streitu að hafa alþjóðaflugvöll í Vatnsmýrinni séu dæmdar til að mistakast.