131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:40]

Einar Karl Haraldsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur verið ánægjulegt til þess að vita að ýmsir þingmenn Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins hafa tekið til máls hér og rætt ýmis brýn úrlausnarefni á höfuðborgarsvæðinu. Það er virkilega kominn tími til að þeir láti í sér heyra um hagsmunamál íbúanna hér á þessu svæði í samgöngumálum.

Það er afskaplega athyglisvert að innan hringvegar í Parísarborg eru 8 þús. hektarar og þar búa 2,2 milljónir manna, þ.e. 268 íbúar á hektara. Höfuðborgarsvæðið sem við köllum svo í venjulegum skilningi, þá ekki nágrannasveitarfélögin hér fyrir austan fjall og á Akranesi og þar með, er 12 þús. hektarar. Þar búa 185 þús. íbúar, þ.e. 16 íbúar á hektara. Það er held ég í öllum skipulagsfræðum viðurkennt að það er ekki hægt að reka hagkvæma og skilvirka og samkeppnishæfa borg við þessar aðstæður. Til þess þarf þéttleikinn eða íbúafjöldinn á hektara að vera a.m.k. 50–70 manns. Það er lágmark til þess að geta haldið uppi almenningssamgöngum og þjónustu þannig að hún geti verið á heimsmælikvarða.

Það er ekki hægt að segja að samgönguyfirvöld hafi stuðlað að því að mál gætu þróast í þessa átt á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að skorturinn á skilningi á hlutverki samgönguyfirvalda til að stuðla að þróun sem gæti gert höfuðborgarsvæðið hagkvæmara og skilvirkara og betra sem borgarsvæði sé æpandi og hafi lengi verið í samgönguráðuneytinu. Sumir segja að það sé vegna þess að þar hugsi menn fyrst og fremst út frá hagsmunum landsbyggðarinnar. Ég veit ekki hvort það er alls kostar rétt en a.m.k. í afstöðu til ýmissa stórframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu er fyrst og fremst litið til kostnaðar en ekki til þess hvaða áhrif framkvæmdirnar hafa á þróun byggðar. Í þeim áhrifum geta þó falist tækifæri og stórkostlegir ávinningar sem ættu að gera það að verkum að eingöngu aurasjónarmið geta ekki verið lögð til hliðsjónar, heldur sá ávinningur sem það er fyrir borgarsamfélagið að stuðla að því að borgin verði þéttari og að fleiri búi hér á hektara en verið hefur.

Við getum séð þetta í umræðunni um Vatnsmýrina. Þar hefur verið deila milli skipulagsyfirvalda og samgönguráðuneytisins, og Alþingis liggur mér við að segja, þ.e. skipulagsyfirvöld í Reykjavík gera ráð fyrir því að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýrinni en samgönguyfirvöld halda áfram að byggja þar eins og ekkert hafi í skorist. Þó að hér sé um einhvers konar óljóst samkomulag hæstv. samgönguráðherra og borgarstjóra að ræða, þ.e. um það að endurskoða áformin, er afskaplega óljóst hvort eitthvað kemur út úr því, og a.m.k. ljóst að samkvæmt þeirri samgönguáætlun sem hér liggur fyrir á að halda áfram allri uppbyggingu, bæði á samgöngumiðstöð og flugstöð í Vatnsmýrinni, eins og að gert sé ráð fyrir því að flugvöllurinn verði um aldur og ævi á þessum stað.

Við getum líka séð þetta á afstöðunni til Sundabrautarinnar. Margir þingmenn hafa óskað eftir því að fá fyrir því vissu að á næstu tveimur árum verði til fjármunir sem tryggi að hægt sé að hanna fyrsta áfanga Sundabrautarinnar, þ.e. tenginguna yfir í Grafarvog. Því hefur verið svarað með fyrirslætti um að það liggi ekki fyrir hvernig lega Sundabrautarinnar eigi að vera, en samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum liggur fyrir að samkomulag er um að fara millileiðina, þ.e. innri leiðina í þeim efnum, með góðum tengingum við Sæbrautina, þannig að það eina sem beðið er eftir er að úrskurður umhverfisráðuneytisins varðandi umhverfismat liggi fyrir. Þá er ekkert að vanbúnaði að hefja hönnun mannvirkisins og undirbúning framkvæmda og kannski verklegar framkvæmdir að einhverju leyti sem fela ekki í sér vegagerð eða brúargerð. Það sem menn biðja um er að fyrir liggi í vegáætlun fullvissa um að hönnunarvinnan tefjist ekki þannig að á árinu 2007 verði hægt að hefjast handa um byggingu og gerð Sundabrautar hafi menn þá komið sér saman um fjármögnunarleið og framkvæmdaleið í því stóra verkefni.

Annað dæmi er Mýrargötuskipulagið. Borgaryfirvöld vilja leggja Mýrargötuna í stokk til þess að geta búið til aðlaðandi hverfi, sem er aftur forsendan fyrir því að hægt sé að rífa á slippasvæðinu og flytja þar starfsemina upp á Akranes til hagsbóta fyrir Faxaflóahafnirnar, en um það (Forseti hringir.) eru heldur engin fyrirheit í áætluninni.