131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:51]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef áður lýst því yfir að ég tel að það muni ekki þurfa að stranda á fjármunum til þess að verkhönnun geti farið á fulla ferð við Sundabrautina og henni lokið eins fljótt og kostur er. Því hefur jafnframt verið lýst yfir að gengið verði í að fjármagna Sundabrautina sérstaklega til hliðar við fjármögnun samgönguáætlunar. Það er því alveg ljóst að þegar til endurskoðunar kemur á samgönguáætlun eftir tvö ár verður að taka ákvörðun um framkvæmdafjármuni til þess að setja Sundabrautina af stað. Þetta vildi ég að kæmi alveg skýrt fram.