131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:52]

Einar Karl Haraldsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta verður að túlka sem hálft loforð af hálfu hæstv. samgönguráðherra.

Varðandi Mýrargötuskipulagið er það afar brýnt mál fyrir Reykjavík og ekki bara fyrir Reykjavík heldur fyrir allt Faxaflóasvæðið og einnig kjördæmi hæstv. ráðherra og fyrir framgang verkefnisins um Faxaflóahafnir, vegna þess að það er algjör forsenda þess að hverfið verði aðlaðandi og vistlegt. Það er forsenda þess að hægt sé að endurgera slippasvæðið, byggja þar íbúðir og selja til að hægt sé að fjármagna flutning á slippstarfseminni upp á Grundartanga eða á Akranes.

Þess vegna finnst okkur að það megi ekki af hálfu Vegagerðarinnar koma í veg fyrir að byggður verði stokkur á Mýrargötuna eins og skipulagið gerir ráð fyrir og að ríkið taki þar hlut sinn en neyði menn ekki út í að fara í einfaldari lausn sem verður til þess að setja áformin, sem eru mikilvæg fyrir Faxaflóahafnirnar, í hættu.