131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:28]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Átta mínútur eru fljótar að líða og kom ég ekki öllu að í minni fyrri ræðu sem ég vildi sagt hafa um þetta mál. Kannski ég taki upp þráðinn þar sem ég var í miðri ræðunni varðandi Héðinsfjarðargöng sem er framkvæmd upp á eina 7 milljarða. Ég taldi að það væri betra að fara frá Ketilási og beint yfir á Siglufjörð, gera göng sem kostuðu 2,5 milljarða og síðan væri hægt að nota þann veg sem er nýlagður.

Ef af þessum göngum verður og menn komast yfir á Ólafsfjörð kemur að því að þar eru einbreið göng með útskotum. Þá þarf að byrja að breikka þau göng. Ef ég man rétt eru þessi göng 3,6 eða 3,7 kílómetrar og það kostar a.m.k. 3 milljarða að breikka þau. Þá erum við komin með 10 milljarða í þessar framkvæmdir og einhvern veginn verður að leysa vatnsvandamál í göngunum þar að auki. Það er ekki bara nóg. Ég er alveg hissa á því að þetta hafi ekki verið tekið inn í umræðuna. Það er alveg ljóst að þetta verður að gera, a.m.k. miðað við alla þá umferð sem á að fara um göngin, þessi sem ég fer aldrei. Þá spyr maður sjálfan sig: Ef það á að fara þessa leið, hvernig vilja Siglfirðingar þá komast hina leiðina? Þá verða menn að keyra Siglufjarðarskriðurnar áfram í stórhættu og fara í Strákagöngin. Þarf ekki að breikka þau líka? Ég held að hér fylgi böggull skammrifi og að þetta verði langtum dýrara. Mér finnst að menn séu að reyna að fela þetta og við eigum eftir að fá reikninginn, höfuðborgarsvæðið, og borga niður þessar framkvæmdir landsbyggðarinnar.

Svo er annað sem vekur athygli, stofn- og tengivegir. Ef við komum í Suðvesturkjördæmi — hv. þm. Jón Bjarnason fullyrti að Vegagerðin borgaði alla þjóðvegi í þéttbýli en hann er ekki vel að sér, þessi hv. þingmaður. Hérna stendur um veg í Suðvesturkjördæmi, með leyfi forseta:

„410 Elliðavatnsvegur: Af Breiðholtsbraut við Dimmu, um Vatnsenda, á Reykjanesbraut ofan Hafnarfjarðar.“ — Það er búið að afleggja þennan veg og byggja annan sem heitir Vatnsendavegur og var byggður af Kópavogsbæ þar sem Vegagerðin hafnaði kostnaðarþátttöku í þeim vegi að bæjarmörkum við Garðabæ. Þá tekur við Elliðavatnsvegur. Við höfum ekki fengið krónu í þennan veg og ekki hægt að ræða það við Vegagerðina fyrir heyrnarleysi þegar talað er um þessa vegi.

Síðan er eitt varðandi Reykjavík í tengivegum sem er mjög merkilegt, með leyfi forseta:

„409 Fossvogsbraut: Af Nesbraut [sem verið er að byggja núna] sunnan Tjarnarinnar í Reykjavík, suður með Öskjuhlíð, austur Fossvogsdal, á Reykjanesbraut austan Blesugrófar.“ — Þá er allt í einu komin Fossvogsbraut sem Kópavogsbúar eru fyrir löngu búnir að hafna. Ég átta mig ekki á hvers konar dónaskapur það er eiginlega að setja þetta inn í þessa áætlun.

Í þriðja lagi er verið að tala um tengibrautir að höfnum. Tökum Reykjavík, með leyfi forseta:

„453 Sundagarðar: Af Reykjanesbraut (Sæbraut), að athafnasvæði Eimskipa.

454 Holtavegur: Af Reykjanesbraut (Sæbraut), að Holtabakka.“ — Svona gætum við tekið úti um allt land stórar og smáar hafnir þar sem alls staðar er verið að stofna tengibrautir að höfnum nema í tveimur kaupstöðum, í Hafnarfjarðarbæ og Kópavogsbæ. Þessir tveir bæir sitja ekki við sama borð og hinir. Nei, það er ekki hægt. Það er ekki nóg að það séu snautleg framlög til vegamála á höfuðborgarsvæðinu, heldur er reynt að mismuna bæjarfélögum með þessum hætti.

Rétt til að fara yfir þetta enn og aftur af því að menn hafa verið að tala um hvað við þingmenn sem höfum mótmælt þessari misskiptingu fjármagns séum vondir við fólkið úti á landi erum við það náttúrlega alls ekki. Ég hef lýst því yfir að ég sé mikill stuðningsmaður góðra samgangna úti á landi sem er lykill að því að byggð þróist og þrífist. En við höfum ákveðið fjármagn og við verðum að skipta því. Ef á að skipta því með þessum hætti verður aldrei friður um það, aldrei.

Ég get farið aftur með þessar tölur, við fáum í kringum 20% af nýframkvæmdum Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðið á þessu tímabili, nema 2008 fer það upp í 23%. (Gripið fram í.) Við fáum sömu upphæð og Norðvesturkjördæmi á þessum fjórum árum, 6,6 milljarða. Þetta er algjörlega fáheyrt. Ég hef boðað breytingartillögur við þessa áætlun til að reyna að sætta sjónarmiðin. Ég er ekkert viss um að skattgreiðendur á þessu svæði séu ánægðir með þessa skiptingu. Auðvitað eiga þingmenn landsbyggðarinnar að standa saman. Það skiptir engu máli hvar í flokki þeir eru þegar kemur að þessum málum, þá er lítill pólitískur ágreiningur. En mér finnst alveg með ólíkindum að aðalmálið í þessari umræðu í dag sé rifrildi um hvort Reykjavíkurflugvöllur eigi að fara eða vera. Veiki hlekkurinn hjá okkur á þessu svæði er kannski sá að skipulagsmál Reykjavíkurborgar eru ekki klár. Þess vegna er hægt að hamra meira á þessu. Hvers vegna í ósköpunum er ekki klárt með mislæg gatnamót á mörkum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, og hvers vegna í ósköpunum er ekki búið að ákveða legu Sundabrautar til að hægt sé að setja fjármuni í hana? Mér finnst þetta ljóður á ráði borgarinnar í þeim málum. Afar fáir vegir í Reykjavík eru tilbúnir. Það er aftur á móti nokkurn veginn klárt hér suður eftir fyrir utan ágreining sem er í Garðabæ sem vonandi leysist innan tíðar.

Virðulegi forseti. Brátt er tími minn upp urinn. Það sem ég vil líka minnast á að lokum er að ég tel þessa fjárfestingu í flugvellinum á Þingeyri vera ranga. Þessum peningum væri betur varið til lengingar á Egilsstöðum eða á Akureyri, eins og ég gat um fyrr í ræðu minni, til að styrkja möguleika þeirra fyrirtækja sem eru að flytja út ferskan fisk með flugi. Mér var tjáð að það væru a.m.k. einir þrír flugfarmar á viku þannig að mér fyndist þeim peningum betur varið þar en á Þingeyri sem er varaflugvöllur fyrir Ísafjörð.

Ég boða sem sagt breytingartilllögur á þessari áætlun við síðari umræðu.