131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:39]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því fer fjarri að sá sem hér stendur sé lofthræddur en ég finn ekki þær götur eða þá vegi á Akureyri sem á eftir að leggja. Í samgönguráðherratíð hv. þingmanns, sem var einn sá duglegasti og breytti að vísu verulega miklu fyrir okkur á höfuðborgarsvæðinu, jók fjárframlagið til þess og gerði það af mikilli samviskusemi, var nánast lagt allt sem hægt var að leggja þannig að það er ekki hægt að bæta um betur. Síðasta verkið var það að leggja Hlíðarfjallsveg upp að skíðamiðstöðinni við Hlíðarfjall sem er þá stofnbraut í þéttbýli.

Varðandi það sem verið er að tína upp sem fer í gegnum Kópavog er það allt of lítið. Ég bendi líka hv. þingmanni á að Kópavogsbúar eru 27 þús. meðan íbúar Akureyrar eru rúmlega 15 þús. (HBl: … tölurnar …) þannig að það er ekki saman að jafna. Innan tíðar verða Kópavogsbúar tvöfalt fleiri en Akureyringar og eiga náttúrlega að fá þar af leiðandi tvöfalt meira. (Gripið fram í.)