131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:06]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Þingmenn höfuðborgarsvæðisins eiga að horfa til landsbyggðarinnar og landsins alls. Þingmenn landsbyggðarinnar eiga líka að horfa til landsins alls og þeir eiga að horfa til höfuðborgarinnar, sem er Reykjavík og nágrenni. Þær framkvæmdir sem ég lagði áherslu á í máli mínu eru einmitt þær framkvæmdir sem standa út af borðinu og skipta landsbyggðina ekki minna máli en höfuðborgarbúa. Þetta er spurningin um greiða aðkomu og umferð landsbyggðarinnar að höfuðborginni sem er aðalþjónustusvæði landsins.

Þegar við tölum um landsbyggð skulum við líka horfa til þess að þeir sem búa í næsta nágrenni við höfuðborgina, hvort sem það eru Suðurnesin, Árborgarsvæðið, Akranes eða Borgarbyggð, að þetta er eitt þjónustusvæði, eitt byggðarsvæði og margt fólk fer á milli þessara staða á hverjum degi til að sækja atvinnu og/eða þjónustu. Það er því ekki hægt að halda því fram að við horfum sérstaklega til hagsmuna höfuðborgarsvæðisins. Við erum einmitt að horfa til hagsmuna landsins alls.