131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:08]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta vera alveg dæmalaus málflutningur, einkum hjá framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum úr Reykjavík. Hv. þm. Jónína Bjartmarz ætti kannski að rifja upp kosningaloforð framsóknarmanna fyrir síðustu kosningar. Hver voru þau í samgöngumálum? Var ekki lagt upp með sérstaka ákallsfjárveitingu í samgöngumálum, lofað sérstöku átaki í ákveðnum landshlutum? Var ekki sett fram samgönguáætlun sem hljóðaði upp á ákveðnar framkvæmdir? En hvað var svo gert eftir kosningar? Hvernig var staðið við kosningaloforð framsóknarmanna? Þau eru skorin niður og enn eru þau skorin niður. Studdi hv. þingmaður það ekki?

Mér finnst að landsmenn eigi rétt á skýringum frá framsóknarmönnum um hvers konar tvískinnungshátt þeir hafa hér frammi. Fyrir kosningar er þessu lofað, en eftir kosningar? Nei, þá eru það bara við Reykvíkingar og þetta ofboðslega langlundargeð Reykvíkinga. Drottinn minn dýri. Ég hélt að við ættum saman eitt geð. Við viljum styðja við höfuðborgina en við þolum ekki kosningasvik Framsóknarflokksins í samgöngumálum og væri rétt að þingmaðurinn gerði grein fyrir því.

Ég vil líka spyrja þingmanninn og geri ráð fyrir að hún vilji aukið fjármagn til vegamála í staðinn fyrir niðurskurð. Fannst Framsóknarflokknum betra að lækka skatta í staðinn fyrir að standa við kosningaloforðin um fjármagn til samgöngumála? Að koma hér með tvískinnungshætti eins og hv. þm. Jónína Bjartmarz gerir og bera þann tvískinnung fram í nafni þingmanna Reykjavíkur. Ég, fyrir hönd Reykvíkinga, frábið mér svoleiðis túlkun.