131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:20]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs hafði ég ekki gert ráð fyrir því að ýmsir þingmenn Reykjavíkur, þingmenn á þessu svæði, réðust með slíku offorsi að okkur fulltrúum landsbyggðarinnar eins og hér hefur verið gert og lýstu jafnmiklu skilningsleysi á þörfum landsbyggðarinnar eins og hér hefur verið gert. Þannig sagði t.d. síðasti ræðumaður, hv. 6. þm. Reykv. s., Jónína Bjartmarz, eitthvað á þá leið að það þyrfti greiðan aðgang að höfuðborginni vegna þess að höfuðborgin og nærliggjandi byggðarlög væru eitt þjónustusvæði. Hún sagði að með því hugsaði hún til landsins alls eins og að ekki gætu aðrir staðir en Reykjavík hér á landi annast þjónustu fyrir umhverfi sitt. Má segja að þetta lýsi í hnotskurn því viðhorfi sem hér hefur verið, að horfa til vegagerðar og samgangna um allt land út frá þessum eina punkti og geta ekki skilið að Reykvíkingar verði í samgöngumálum eins og öðrum málum að sýna skilning og biðlund eins og allir aðrir verða að sýna skilning og biðlund.

Það má kannski segja að það sé eitt sérstaklega sem upp úr standi — svo að ég sleppi Sundabrautinni. Eins og ég sagði áður kostar Sundabrautin kannski 12 eða 16 milljarða, eftir því hvernig í hana verður ráðist. Á næstu fjórum árum fara rúmir 8 milljarðar til Reykjavíkur og næsta nágrennis þannig að það er auðvitað veruleg viðbót þegar í Sundabrautina verður ráðist og engum manni dettur í hug að allar aðrar framkvæmdir liggi niðri á höfuðborgarsvæðinu um þær mundir sem í Sundabraut verður ráðist. Auðvitað hlýtur það að vera svo þegar ráðist er í mikil samgöngumannvirki að stundum er meira og stundum minna. Ég veit að þetta skilja þeir hv. þingmenn sem eru vel að sér í verklegum framkvæmdum og verkfræði, kunna mun á litlum verkum og stórum.

Á hinn bóginn hefur það vakið athygli mína hversu áfjáðir ýmsir þingmenn Reykjavíkur eru í að leggja niður Reykjavíkurflugvöll og horfa til þess eins hversu mikið mundi sparast fyrir Reykvíkinga og hugsa þá sem svo að andvirði þeirrar lóðar sem undir flugvellinum er skuli öll renna til þarfa Reykvíkinga. Ég spurði einn ágætan þingmann Reykjavíkur sem hér hafði talað hvernig hann hugsaði sér að Tjörnin yrði eftir að komin væri íbúðabyggð fyrir sunnan Tjörnina. Þá viðurkenndi hann að vísu að hún mundi þorna upp en taldi að það væri kannski hægt að leiða vatn í Tjörnina frá Vatnsendahæð svo að við fengjum þá manngerða tjörn í Reykjavík. Það yrði heldur en ekki munur að fá hér manngerða tjörn og geta ekki hugsað sér náttúrulegt rennsli í Tjörnina.

Við sem fæddir erum í Reykjavík og horfðum á sefönd í litlu tjörninni þegar við vorum ungir eigum erfitt með að hugsa okkur slíkt, að höfuðborgin fari svona gjörsamlega úr samhengi við umhverfi sitt og að fulltrúar hennar hér á Alþingi skuli tala um þennan gimstein Reykjavíkur með þvílíkri léttúð. En auðvitað er það rétt að um leið og flugvöllurinn breytist í íbúðabyggð þornar Tjörnin upp. Það vatnsrennsli sem þar kemur verður þurrkað og þessi perla okkar Reykvíkinga, ef ég má orða það svo, fæddur hér og uppalinn, verður að engu ger, verður mött og ljót eins og annað það sem illa er um hirt. Þetta er athyglisvert.

Ég vil líka segja að það er athyglisvert að ýmsir þingmenn Reykvíkinga hafa gert lítið úr því úr þessum ræðustól þó að atvinna kannski 1.500 manna verði lögð niður, tala um að það megi þess vegna flytja þessa stofnun út á land, kannski til Keflavíkur. Þeir hafa ekki rætt um að það megi flytja Flugmálastjórn öllu lengra. Það má kannski koma henni fyrir á Ísafirði, Akureyri eða Egilsstöðum, vil ég segja. Yfirstjórn flugmála, það er lítið með hana að gera hér á þessu svæði þegar búið verður að leggja flugvöllinn niður.

Mér finnst þetta vera mjög góð hugmynd hjá Reykvíkingum að byrja með þessum myndarlega hætti stofnanaflutninginn frá höfuðborginni. Það eru líka aðrar stofnanir hér sem mætti flytja. Við getum hugsað okkur t.d. Tryggingastofnun ríkisins. Það eru stundum umferðarhnútar í kringum hana. Ég er alveg viss um að hv. þingmenn Reykjavíkur, nú þegar ég bendi þeim á það, verða alls hugar fegnir yfir því að hægt sé að leysa umferðarhnútana einfaldlega með því að flytja Tryggingastofnun ríkisins út á land. Það er ekki mikið vandamál. Við skulum tala um það í alvöru að flytja Tryggingastofnunina út á land.

Við getum hugsað um Vegagerðina. Það væri hægt að flytja hana út á land. Þá myndast ekki umferðarhnútar í Borgartúninu. Eins getum við sagt með fullum skilningi og fullum rétti að eftir að enginn flugvöllur er í Reykjavík og ekki má fljúga yfir höfuðborginni er kannski hægt að styrkja bráðaþjónustuna á Akureyri þannig að sjúkraflugið fari allt þangað. Ekki er hægt að hugsa sér að hafa sjúkraflug til staðar þar sem er enginn flugvöllur, nema hv. þingmenn Reykjavíkur hugsi sér að sjúklingarnir detti eins og dropaskúr úr loftinu eða eitthvað því um líkt. Allt er þetta fróðlegt og skemmtilegt og ánægjulegt, að heyra hvernig þingmenn Reykjavíkur eru að ná nýjum tóni. (Gripið fram í.) Ég heyri að bæjarfulltrúinn í Kópavogi, hv. þm. Gunnar Birgisson, er ekki alveg búinn að samsama sig þessu. Hann vill halda í það sem Kópavogur hefur og er ekki alveg reiðubúinn að flytja Smáralindina norður sem ég skil vel því hún var mikið baráttumál þessa hv. þingmanns.

Ég spurði hann að því áðan að gamni mínu, vegna þess að hann hefur orðið mjög stoltur yfir því að Kópavogur skyldi loksins hafa orðið stærri en Akureyri, fyrir einum 20 árum, hvort honum fyndist ekki pínulítið misskipt þegar Akureyri fengi bara litlar 30 millj. kr. á næstu fjórum árum af þessari vegáætlun. Þar búa þó 5–7% af Íslendingum. Berum það saman við þetta lítilræði sem fer til Kópavogs. Mér heyrðist á þingmanninum að honum fyndist þetta eiginlega of mikið af því að það er kominn vegur upp í Hlíðarfjall. Auðvitað er kominn vegur upp í Bláfjöll, þó væri, báðum megin frá. En það er kominn vegur upp í Hlíðarfjall og þess vegna er kannski of mikið að 30 millj. kr. fari til Akureyrar. Þetta er náttúrlega út af fyrir sig skiljanlegt þegar maður hugsar um þessar miklu þarfir sem eru á samgöngum á höfuðborgarsvæðinu sem eru algjörlega ólíkar þeim þörfum sem eru úti á landi. Eins og ég sagði áðan, hverjum dettur í hug að það geti verið skemmtilegt að aka að Dettifossi að vetrarlagi? Engum. Að menn komist á bundnu slitlagi til Ísafjarðar, hvers konar eiginlega frekja er þetta? Það er eins og ég segi, maður verður að reyna að setja sig inn í þessa nýju kröfupólitík Reykvíkinga og átta sig á þeirri miklu sanngirni (Forseti hringir.) sem þeir loksins sýna landsbyggðinni í þeim umræðum sem hér fara fram.