131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:28]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum alveg sammála, ég og hv. þm. Halldór Blöndal, varðandi Reykjavíkurflugvöll. Ekki greinir okkur á um það mál og ég skil ekki það fólk sem vill þennan flugvöll í burtu. Ég var nýlega á ferð í Tævan, þar á meðal í höfuðborginni Tæpei þar sem er flugvöllur í miðri borg. Þeir eru landluktir og þá vantar mikið land til að byggja á en þeir vildu ekki fórna flugvellinum því að þeir vilja halda tengslum við landsbyggðina og vildu ekki missa atvinnuna sem er af þessum velli.

Í Docklands sem er í London er líka lítill flugvöllur af svipaðri stærðargráðu og Reykjavíkurflugvöllur þannig að ég held að menn ættu að horfa á það.

Varðandi þetta sem hv. þm. Halldór Blöndal kom inn á að það hefði verið ráðist á þingmenn landsbyggðarinnar, alls ekki. Við erum að tala um að það sé misskipting fjármuna. Og það er rétt að þegar hv. þingmaður var samgönguráðherra gerði hann átak. En núna árið 2005 er reiknað með 1.200 millj. kr. inn á allt höfuðborgarsvæðið, þ.e. sömu upphæð og hv. þingmaður setti inn á höfuðborgarsvæðið að þávirði þegar hann var samgönguráðherra fyrir 12–14 árum. Það væri langtum meira núna. Þetta hefur aldrei verið svona lítið. Þetta var svipað og þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var samgönguráðherra, þegar höfuðborgarsvæðið var svelt.

Árið 2006 eru tæpar 1.200. millj. kr., 2007 tæplega 1.800 millj. kr. og 2008 2,2 milljarðar. Þetta eru samtals um 6,4 milljarðar. Síðan er verið að tala um tengivegina og stofnbrautirnar. Ég bið hv. þingmann að kíkja aðeins á það, ég er ekki með þann lista, sem er inn í Norðausturkjördæmi en það er í hundruðum milljóna og partur af því er inn á Akureyrarsvæðið.