131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:33]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði fyrr í kvöld að ég teldi skynsamlegt að fara frá Ketilási yfir á Siglufjörð. Mér hefur verið tjáð, af mönnum sem þekkja til, að það kostaði 2,5 milljarða kr. Ég sagði líka að ef farin yrðu þessi vitlausu Héðinsfjarðargöng þá yrði að tvöfalda Ólafsfjarðargöng. Það fylgir nefnilega með í pakkanum eins og ég sagði fyrr í kvöld ef menn vilja ekki þegja það í hel. Það eru 3,5 milljarðar kr. og þá erum við komnir upp í 10–11 milljarða kr. sem þetta kostar í raun sem bíður okkar. Hvað ætli það sé mikið á íbúa á Siglufirði, þar sem búa 1.350 manns, eða á fjölskyldu?

Ef menn eru svo fjáðir þá geta þeir tengt í gegnum Lágheiðina yfir í Ólafsfjörð seinna þegar göngin eru komin frá Ketilási að Siglufirði. Þá kemur að öðru vandamáli líka. Ef það verður svona gífurleg umferð þá hlýtur hún að aukast hinum megin frá líka. Hvað á þá að gera við Strákagöng? Á að breikka þau líka? Ég vil spyrja hv. þingmann að því. Ég vil spyrja hv. þingmann ef hann skyldi ekki vera alveg klár á því að breikka þurfi Ólafsfjarðargöng. Þá vitum við upphæðirnar sem eru í spilinu og ég tel að um þær þurfi landsmenn að fá að vita.

Varðandi síðan náttúruunnandann hv. þm. Halldór Blöndal, virðulegi forseti, þá er náttúrlega alþekkt að við hjá Kópavogsbæ pössum mjög vel upp á umhverfismál okkar og erum til fyrirmyndar meðal sveitarfélaga. Ég verð að bjóða hv. þingmanni í bíltúr upp að Elliðavatni fyrst hann talar niður til þeirra fallegu húsa sem þar er verið að byggja. Ég átta mig eiginlega ekki á hv. þingmanni, hvort hann sé á móti byggð yfir höfuð, þróun byggðar eða telji að aðeins megi byggja á Eyjafjarðarsvæðinu og kannski aðeins á Húsavík en Eyjafjarðarsvæðið hafi algeran forgang.