131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:54]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir segir að það sé sjálfstæðismönnum að kenna hvað seint hafi gengið með endanlega ákvörðunartöku um legu Sundabrautar. Það er rangt vegna þess að í pólitík er það nú þannig að meiri hlutinn ræður för. Ég hef margvitnað til bréfsins frá 6. apríl frá borgarstjóranum til þingmanna Reykjavíkur þar sem ekki er enn búið að taka ákvörðun af hálfu borgaryfirvalda um legu brautarinnar. Meiri hluti borgarstjórnar hefur hangið í Golden Gate brúnni alveg fram að þessum tíma. Það veit auðvitað hv. þingmaður, veit það mjög vel.

Svo þetta, að því tilskildu að leiðir liggi í Kvosina þá er meiri hluti borgarstjórnar sammála innri leiðinni. Árið 1994 vildi þá nýkosinn meiri hluti ekki fara í mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar af því að þá lá leiðin of nærri Kvosinni. Þá vildi meiri hlutinn nýi nánast að fólk færi annað hvort á reiðhjólum eða gangandi niður í bæ, bílar áttu ekki að koma þar. Nú allt í einu er það sett upp að leiðir skuli liggja þannig yfir sundin að það sé á Sæbrautina og að bílar keyri nánast óafvitandi niður í Kvos.

Í skýrslu frá þeim sem hafa fjallað um áhrif umferðar af Sundabraut á Miklubraut eða Sæbraut kemur fram að þetta hefur óveruleg áhrif á umferðina, þannig að svona skilyrði eru bara ekkert annað en vitleysa.

Svo er annar kapítuli út af fyrir sig, það eru náttúrlega mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Það sýnir sig t.d., virðulegi forseti, að þar sem hafa verið sett mislæg gatnamót hefur slysum stórfækkað. Ég er alveg hissa á því að enn skuli vera (Forseti hringir.) tjaldað til einnar nætur af hálfu borgaryfirvalda með Miklubraut/Kringlumýrarbraut. Það er kannski sjálfstæðismönnum að kenna eða hvað?

(Forseti (JBjart): Hv. þingmaður á þess kost að halda áfram ræðu sinni í seinna andsvari.)