131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Meiri hlutinn ræður, sagði hv. þingmaður. Það vill nú þannig til að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn og hefur auðvitað haft þó nokkuð mikið um það að segja hvernig fram hefur undið með Sundabrautina. Ég minni á að bæði minni og meiri hluti í borgarstjórninni var sammála um ytri leiðina — sem hv. þingmaður kallar Golden Gate — fram að síðustu kosningum, þá var skipt um skoðun.

Nú hafa menn komist að niðurstöðu um að fara innri leiðina til að ná samkomulagi. Þrátt fyrir að hæstv. ráðherra viti að þarna er samkomulag að komast á um þetta og aðeins er beðið eftir umhverfismatinu, þá er þessi vegur ekki inni á samgönguáætlun. Ég hvet þingmenn á höfuðborgarsvæðinu til að ráða bót á þessu og tekið verði á því í samgöngunefnd og séð til þess að þegar menn verða komnir að þessari niðurstöðu, sem allir vita að er orðin, og umhverfismatið verður á hreinu ef allt verður í lagi þar, þá ætti að vera hægt að fara í þetta mál og setja peninga í það.

Varðandi Miklubraut/Kringlumýrarbraut og mislæg gatnamót þar veit hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, formaður samgöngunefndar, vel um það að verslunarmiðstöðin Kringlan hefur verið ósátt við að sett væru þarna mislæg gatnamót vegna þess að (Gripið fram í.) aðkoman yrði erfiðari að Kringlunni með þeim. (Gripið fram í: Er það Baugur?) Hvaða kjaftæði er þetta eiginlega, ég bara bið menn um að halda ró sinni. (Forseti hringir.) Þeir vita náttúrlega hvernig þessi mál liggja þó að þeir vilji ekki viðurkenna það hér í ræðustól.