131. löggjafarþing — 108. fundur,  13. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:00]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get svo sannarlega tekið undir þetta með hafnasamlagið og vissulega er Sundabrautin því mjög mikilvæg. Ég treysti á alla þingmenn á höfuðborgarsvæðinu að sjá til þess að sú vegaframkvæmd verði sem fyrst að veruleika. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú setið í samgönguráðuneytinu í manna minnum þannig að hann hefur ráðið ansi miklu.

Varðandi Miklubraut/Kringlumýrarbraut þá er verið að breikka aðreinarnar og fráreinarnar inn á brautina og verið er að hanna þarna nokkuð lögulega leið. Þótt það séu ekki mislæg gatnamót þá er þarna önnur leið á teikniborðinu sem ég a.m.k. hef séð sem virðist vera mun betri en þær miklu slaufur sem hugmyndir hafa verið um og hefðu komið í veg fyrir að Reykvíkingar ættu greiða leið að stærstu verslunarmiðstöð sinni sem ég hefði talið vera mjög bagalegt. Þarna er verið að reyna að minnka þær hættur sem sannarlega eru á þessum gatnamótum. Ég tek heils hugar undir það. Mér finnst það ekki boðlegt og þarf auðvitað að leysa það, og það er einmitt verið að því eins og hv. þingmaður veit vel.