131. löggjafarþing — 108. fundur,  13. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:02]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þá umfangsmiklu umræðu sem hér hefur farið fram í dag um samgönguáætlunina og var af mörgu að taka. Það eru fjölmargar fyrirspurnir sem ég tel nauðsynlegt að fara yfir og svara og nokkuð mörg efnisatriði sem koma þarf inn á áður en umræðunni lýkur.

Fyrir það fyrsta tek ég undir með þingmönnum sem hafa vakið athygli á því sem blasir auðvitað við að verkefnin í samgöngumálum á Íslandi eru mjög mikil. Við eigum enn langt í land með að ljúka uppbyggingu og þá sérstaklega í vegakerfinu. Hér erum við hins vegar að fjalla um flugvelli, hafnir og vegi en umræðan hefur mest verið um vegakerfið sem sýnir, eins og kom fram í framsöguræðu minni, að þar eru stærstu verkefnin.

Það er nauðsynlegt að átta sig á þessu vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram þar sem menn hafa verið að gera mjög mikið úr því að ríkisstjórnin og þar með samgönguráðherrann og stjórnarflokkarnir hafi verið að draga saman seglin óeðlilega mikið og draga saman útgjöld til vegamála, draga mjög úr þeim fjárframlögum sem vegaframkvæmdirnar hafa haft úr að moða. Ef við lítum á málin af sanngirni og án þess að fara inn á samanburðarfræði sem ég tel að ekki sé eðlileg, er rétt að vitna til þess að í skýrslu sem lögð var fyrir Alþingi um framkvæmdir í vegamálum á síðustu árum kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

Ef ég tek dæmi á föstu verðlagi ársins 2003, sem ég hef hér einungis við hendina, þá voru framkvæmdir til vegamála á árinu 1990 tæplega 8 milljarðar króna. Það er kannski rétt að rifja upp hver var samgönguráðherra þá. Jú, það var sá sem talaði hér mjög fjálglega um að meiri fjármuni þyrfti til vegagerðar, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Tæpir 8 milljarðar kr. fóru til vegamála árið 1990. Árið 1999, þegar ég tók við ráðherraembætti., voru það 11,3 milljarðar kr., síðan 11,7, 12,9, 12,2 og 16,2 á árinu 2003. Síðan gerum við ráð fyrir tæpum 12 milljörðum á árinu 2005, 11,5 árið 2006, 15,6 árið 2007 og 15,9 árið 2008.

Hv. þingmenn geta séð af þessum tölum og ættu að rifja það upp, þeir sem vilja kynna sér og taka þátt í þessari umræðu af einhverri sanngirni, hvernig þróunin hefur verið. Ríkisstjórnin getur með sanni sagt að lögð hafi verið verulega aukin áhersla á uppbyggingu samgöngukerfisins. Ég hvet hv. þingmenn til þess að líta á þær tölulegu staðreyndir sem hér liggja fyrir.

Aðeins út af fyrirspurnum að öðru leyti sem hér hafa komið fram þá var spurt mikið og margsinnis um framkvæmdir vegna Sundabrautar og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði m.a. um þær. Ég hef svarað því nokkrum sinnum hér í andsvörum og reyndar trekk í trekk og aftur hefur verið spurt þannig að ég tel ástæðu til að svara því enn á ný.

Ég tel að fjármunir verði nægjanlegir til hönnunar. Ég legg mikla áherslu á að unnið verði fullum fetum að undirbúningi og hönnun vegna Sundabrautar, þó að ekki liggi fyrir á þessari stundu á hvaða forsendum hægt er að gera það en ekki er hægt að byrja verkhönnun fyrr en búið er að ákveða leiðina og búið að fá öll leyfi, m.a. væntanleg framkvæmdaleyfi til þess að setja verkið af stað.

Ég tel að það sé alveg einsýnt að á þessu tímabili, á næstu tveimur árum þangað til samgönguáætlun kemur til endurskoðunar, verði lokið við þennan undirbúning að langmestu leyti þannig að hægt verði að gera ráð fyrir framkvæmdum fljótlega eftir þann tíma. Ég tel eðlilegt að gera ráð fyrir að við endurskoðun á samgönguáætlun eftir tvö ár verði tekin ákvörðun um fjármögnun þessara framkvæmda. Ég vil ekki gefa neinar yfirlýsingar um það á þessari stundu með hvaða hætti það verður gert en ég tel að þá sé eðlilegt að taka ákvörðun um fjármögnun framkvæmda við Sundabraut.

Afstaða mín til gjaldtöku endurspeglast mjög í þeim tillögum sem ég hef fengið um hugsanlega gjaldtöku vegna umferðarmannvirkja þar sem lagt er til að ekki sé farið í gjaldtöku nema um tvo kosti sé að ræða við gjaldtöku af umferðarmannvirkjum og það verði að sjálfsögðu að skoða það í því ljósi hvernig staðið verður að fjármögnun Sundabrautarinnar. Ég held að það sé mjög erfitt að brytja þá braut eitthvað niður, að það megi taka gjald af hluta brautarinnar en ekki af öðrum. Þarna er úr mjög vöndu að ráða. Ég hef ekki gert upp hug minn um þetta og tel eðlilegt að fram fari umræður um gjaldtökumöguleika í tengslum við afgreiðslu samgönguáætlunar í samgöngunefnd en ég tel að það sé hinn eðlilegi farvegur eins og er.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom með mjög athyglisverða yfirlýsingu hér um að hann teldi sig ekki hafa þrek til að reyna að sannfæra kjósendur sína um að staðið verði við samgönguáætlunina. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel miklu líklegra að það verði af einhverjum öðrum ástæðum en því að menn telji samgönguáætlun ekki trúverðuga að hann njóti ekki mikils fylgis. Ég held að hv. þingmenn verði að ganga til þess verks á forsendum sem fyrir liggja og það á við um samgönguáætlunina að stuðningur við hana er að sjálfsögðu ýmsu háður, ég geri mér grein fyrir því, en ég legg auðvitað mikla áherslu á að samgönguáætlunin er afar mikils virði og hún er mikils virði fyrir alla landshluta.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ræddi nokkuð um umferðaröryggismálin. Af því tilefni vil ég ítreka það sem ég sagði hér, raunar eftir að hún var farin úr salnum, held ég, að í samgönguáætluninni um er að ræða sérstakar fjárveitingar til umferðaröryggismála upp á 385 millj. kr. á ári. Ekki hefur áður verið sérgreind fjárveiting til umferðaröryggisaðgerða fyrr en í þessari samgönguáætlun. Það er því ekki rétt hjá hv. þingmanni sem hún fullyrti í ræðu sinni. Og ég ítreka það að í rauninni eru allar framkvæmdir á vegakerfinu meira og minna tengdar því að tryggja aukið öryggi.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spurðist sérstaklega fyrir um aukið eftirlit með fíkniefnanotkun ökumanna. Ég hef ekki upplýsingar nákvæmlega hvað varðar þær áherslur, en tilgreint er á bls. 123 í samgönguáætlun hvernig ráðstafa á þeim 1.540 milljónum sem þar er um að ræða. Langstærstu upphæðirnar eru í hraðaksturseftirlit og eftirlit með notkun bílbelta og síðan ölvunar- og fíkniefnaakstur. Þar er sérstaklega tilgreint að gert sé ráð fyrir að nýta 228 milljónir til þeirra aðgerða á tímabilinu. Þarna er því um stórar fjárhæðir að tefla. Því miður virðist ekki vera vanþörf á að leggja mjög mikla áherslu á þetta.

Umræður um flugvöllinn hafa verið nokkrar í kvöld. Af því tilefni vil ég segja að ég tel ekki óeðlilegt að umræður séu um Reykjavíkurflugvöll af hálfu þingmanna Reykjavíkur eins og hér hafa verið. Engu að síður verða hv. þingmenn að minnast þess að flugvöllurinn er staðreynd í dag. Ég vil nefna að samkomulagið sem ég og borgarstjóri gerðum varðandi samgöngumiðstöðina gengur út á að samgöngumiðstöðin verði reist til að sinna öllum samgönguþáttunum og flugvellinum einnig. Ef flugvöllurinn fer þá lítum við svo á, og út á það gengur samkomulagið, að samgöngumiðstöðin nýtist áfram í þágu flugrútunnar til Keflavíkur og millilandaflugsins þar og til almenningssamgangnanna að öðru leyti. Ég tel því að með samgöngumiðstöðinni sé ekki endilega verið að negla flugvöllinn niður til eilífðarnóns. Ég vil að þetta komi fram hér án þess að ég sé að gefa einhvern afslátt af mikilvægi flugvallarins. En ég tel alveg nauðsynlegt og eðlilegt gagnvart þeim þingmönnum sem leggja þessar áherslur og spyrjast fyrir um þetta að þeir séu upplýstir um þessa afstöðu mína til málsins.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz spurðist sérstaklega fyrir um Sundabrautina. Ég tel mig hafa svarað því sem hv. þingmaður spurði um, en hún spurði einnig um hversu mörg óhöpp yrðu í umferðinni annars vegar vegna vegakerfisins og hins vegar vegna ökumannanna og annarra þátta. Ég hef ekki upplýsingar um það við þessa umræðu en það er alveg ljóst að langalvarlegustu slysin verða vegna hraðaksturs og það má að sjálfsögðu rekja til þess að ökumennirnir gæta sín ekki en oft og tíðum er það úti á þjóðvegunum þar sem vegakerfið er ekki í nógu góðu standi.

Þá kem ég einmitt að þessu mikilvæga atriði sem hefur verið nokkuð mikið rætt um, fjárveitingum til einstakra landshluta. Það er alveg ljóst, og það sagði ég fyrr í kvöld, að megináherslur í þessari samgönguáætlun lúta að því að tryggja umferðaröryggið. Þegar við lítum til þess að í Suðurkjördæminu eru 355 kílómetrar af vegum, í Suðvesturkjördæmi 264 kílómetrar, í höfuðborginni 115, 5.100 í Norðvesturkjördæmi og 3.900 í Norðausturkjördæmi blasir algerlega við hvers vegna ekki er farið eftir íbúatölu um skiptingu fjármuna til uppbyggingar vegakerfisins. Við erum að byggja upp vegakerfi í þágu umferðaröryggis og þá getum við ekki miðað við íbúatölu, það er algerlega ótæk viðmiðun. (Gripið fram í.)

Hins vegar er það staðreynd að mikið á eftir að gera í uppbyggingu vega um allt land. Ég vil sérstaklega geta þess vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram um framlög til höfuðborgarsvæðisins að á árinu 1991, á verðlagi ársins 2005, fóru 482 milljónir til höfuðborgarinnar. Á árinu 2003 voru það 2,3 milljarðar, á árinu 2004 1.320 milljónir og við gerum ráð fyrir því að á árunum 2007 og 2008 verði það 1.700 milljónir og 2,2 milljarðar. Við höfum stóraukið framlög til höfuðborgarsvæðisins og sá sem hér stendur er sá samgönguráðherra sem hefur lagt til tillögur um mestu fjármunina í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Því miður er tíminn búinn og væri margt hægt að segja til viðbótar um þær umræður sem hér hafa verið og hafa verið út af fyrir sig ágætar. Ég vil í lokin þakka (Forseti hringir.) hv. þingmönnum fyrir umræðurnar engu að síður.