131. löggjafarþing — 108. fundur,  13. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:19]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Það er satt að segja, virðulegur forseti, hreint með ólíkindum að hér skuli hafa verið að tala fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er ekkert hissa á því að hann skuli ekki vera lengur borgarfulltrúi. Að hann skuli leyfa sér að koma hingað upp og reyna að kenna samgönguráðherranum um það að borgarstjórnin í Reykjavík hefur ekki enn þá gert upp hug sinn um það hvar Sundabrautin eigi að liggja. Og hann er, hv. þingmaður, að skamma samgönguráðherra fyrir það að hann skuli ekki hafa tekið fram fyrir hendurnar á borgarstjórninni í nærri sex ár. Ég væri alveg tilbúinn til þess út af fyrir sig.

Hv. þm. Helgi Hjörvar, þessi sami, tók það alveg sérstaklega fram fyrr í kvöld í öðru samhengi að borgaryfirvöld færu með skipulagsmál, og það eru borgaryfirvöld sem þurfa að gera upp hug sinn um það hvar Sundabrautin eigi að liggja. Þegar það liggur fyrir hefur samgönguráðherrann lýst því yfir að hann muni tryggja fjármuni til þess að geta verkhannað brautina og sett hana af stað og hann muni sem samgönguráðherra leggja til hvernig fjármögnun verður háttað. Þetta eru allt saman tómir útúrsnúningar hjá manni sem veit að hann hefur vondan málstað að verja, og hann hefur ekki staðið sig.