131. löggjafarþing — 108. fundur,  13. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:26]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst af þessari umræðu hér að kakan sem er til að skipta úr fjármagni til samgöngumála er í fyrsta lagi allt of lítil og skapar líka enn þá verri stöðu þegar hún er skorin niður fyrirvaralaust, og kannski að ástæðulausu. Menn skreyta sig með áætlunum sem síðan eru skornar niður.

Einnig er nokkuð sem ég vil inna hæstv. ráðherra eftir hvort ekki sé í bígerð að taka á. Það eru þeir fjölmörgu vegir sem liggja um dreifðar byggðir landsins, safn- og tengivegir, sem skipta gríðarlegu máli fyrir byggð, búsetu og atvinnulíf vítt og breitt um landið, skipta líka máli í uppbyggingu á ferðaþjónustu og öðru slíku sem horft er mjög til. Framlög til þessara vegaflokka hafa staðið í stað undanfarin ár og eru auk þess allt of lág. Meira að segja stendur í samgönguáætluninni, held ég, setning sem reynir að afsaka þessa stöðu: Fjárframlög til þessara vegaflokka eru allt of lág. Ég held að það sé eini vegaflokkurinn sem í vegáætluninni sjálfri er kveðið svo að orði um. Þetta er sá hópur sem ekki getur haldið neina fjölmenna fundi, þúsund manna fundi, og sett þrýsting á ráðherrann, þingmenn og aðra til að veita fjármagn í. Engu að síður skiptir þetta alveg gríðarlegu máli.

Ég vil því spyrja ráðherrann hvort (Forseti hringir.) engin von sé til þess að á þessum vegaflokki verði tekið því að eins og nú horfir er ekki séð að þar gerist neitt sérstakt.