131. löggjafarþing — 108. fundur,  13. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:29]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara ítreka að þessir vegaflokkar úti um sveitir landsins, safn- og tengivegir, eru víða í mjög bágbornu ástandi. Umferð á þeim eykst og um leið mikilvægi þeirra. Mér finnst mjög brýnt að gera átak í þessum málum og marka stefnu fyrir þessa vegi.

Í tengslum við umræður sem hér hafa farið fram vil ég líka inna ráðherrann eftir öðru. Mikilvægi vega fyrir atvinnulíf og mannlíf er mikið og nú er jafnframt verið að vinna hér áætlun í ferðamálum og framtíðarskipan þeirra. Mikilvægi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar fer vaxandi í þjóðarbúskapnum og er gert ráð fyrir því að aðkomumenn geti orðið allt upp í ein milljón hér innan tíu ára. Til þess að geta tekið á móti þessum mörgu ferðamönnum, dreift þeim um landið og bæði boðið upp á þá þjónustu og líka skapað þá atvinnu sem hægt er af þessum ferðamönnum skipta vegirnir úti um land miklu máli. Það varðar þróun þessa atvinnuvegar. Ég hygg að í umræðunni um vegaframkvæmdir í Reykjavík sé eins gott að gera sér grein fyrir því að ein stærsta atvinnugrein Reykvíkinga er ferðaþjónustan sem byggir m.a. á því að fólk komi hingað og fari síðan vítt og breitt um landið. Vegirnir skipta gríðarlegu máli fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu.

Því spyr ég: Hefði ekki verið ráð að gera úttekt á mikilvægi veganna fyrir uppbyggingu ferðaþjónustunnar (Forseti hringir.) miðað við þá framtíðarsýn sem við vonum að við getum staðið frammi fyrir varðandi þessa atvinnugrein?