131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umræða um störf einkavæðingarnefndar.

[13:01]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs um störf þingsins er sú staðreynd að hæstv. forsætisráðherra hefur í tvígang neitað að taka umræðu um störf einkavæðingarnefndar í nútíð og fortíð. Staðreyndin er sú að hæstv. forsætisráðherra hefur lengi átt sæti í ráðherranefnd um einkavæðingu, þeirri nefnd sem tekur allar helstu ákvarðanir um sölu á hlutabréfum ríkisins. Hann átti þátt í að taka ákvörðun um að hefja viðræður um sölu á bréfum í Búnaðarbankanum hvar félag í hans eigu, hans sjálfs að hluta, kom að málum og hann var því óbeinn aðili að viðræðunum. Það vakna því spurningar um hvers vegna hann hafi ekki gert þjóðinni ítarlega grein fyrir stöðu sinni í þessu söluferli þar sem hann bjó yfir innherjaupplýsingum vegna setu sinnar í ráðherranefnd um einkavæðingu auk þess að vera óbeinn aðili að viðræðunum vegna hlutabréfaeignar sinnar.

Þessi staðreynd, saga einkavæðingarnefndar, þrálátur orðrómur og fréttaflutningur af fyrirhugaðri sölu Símans, er rótin að þeirri tortryggni sem ríkir í samfélaginu um að enn á ný eigi að afhenda flokksgæðingum ríkiseignir. Þetta getur forsætisráðherra ekki afgreitt sem sögusagnir. Hann verður að hreinsa andrúmsloftið. Hann verður að stíga fram og taka þátt í umræðunni. Hann getur ekki endalaust falið sig að baki orðræðu og fullyrðingum um að um gróusögur sé að ræða.

Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvenær við getum tekið þá umræðu sem í tvígang hefur verið óskað eftir, sem í tvígang hefur verið samþykkt af þinginu, sem í tvígang hefur verið hafnað af hæstv. forsætisráðherra. Hvenær getum við tekið upp umræðu um störf einkavæðingarnefndar í nútíð og fortíð? Hvenær getum við rætt þessa hluti sem flestir í samfélaginu eru að hugleiða og sem hafa gert það að verkum að það er þjóðarvakning um að kaupa Símann?

(Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Hvenær getum við tekið þessa umræðu á dagskrá? (Forseti hringir.)