131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umræða um störf einkavæðingarnefndar.

[13:03]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil benda hv. þingmanni á að beiðni hans um utandagskrárumræðu hefur verið tekin fyrir nokkrum sinnum með formönnum þingflokka. Það var ákveðið að sú umræða skyldi ekki verða, heldur skyldi hæstv. forsætisráðherra flytja þinginu skýrslu um sölu Landssímans. Síðan hefur þetta mál einu sinni borið á góma milli mín og formanna þingflokka og ég hef synjað um að þessi utandagskrárumræða verði þar sem umræða hefur þegar farið fram um skýrslu Landssímans. Það verður ekki heimilað að utandagskrárumræður verði um hið sama efni svo að hv. þingmaður á að snúa sér til forseta en ekki forsætisráðherra þegar hann kvartar undan því að ekki hafi verið orðið við beiðni hans. Ég vil benda hv. þingmanni á það.