131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umræða um störf einkavæðingarnefndar.

[13:04]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er orðið nokkuð undarlegt hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar að hefja hvern einasta þingfund með þessum hætti eins og þeir gera (Gripið fram í.) og er þeim ekki samboðið.

Ég hef aldrei neitað umræðu um Símann og ég veit ekki betur en að ég hafi hafið umræðu um niðurstöður einkavæðingarnefndar. En ég heyri að hv. þingmaður vill ræða mikið um fortíðina og ákvarðanir sem voru teknar þegar bankarnir voru seldir. Það voru þrjú tilboð í bankana, í tvo banka, og tveimur var tekið. Ef það léttir ró þingmannsins og hans undarlega hugarfar var það svo að þegar ráðherranefnd um einkavæðingu tók endanlegar ákvarðanir um þau mál var sá sem hér stendur í veikindaleyfi. Reyndar kom hæstv. þáverandi forsætisráðherra og færði mér tíðindi um þær ákvarðanir þegar ég lá á sjúkrabeði á Landspítalanum.