131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umræða um störf einkavæðingarnefndar.

[13:05]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra vill ekki tala um þau mál sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur óskað eftir umræðu um.

(Forseti (HBl): Ég vil leiðrétta hjá hv. þingmanni og óska eftir því að hann taki það til greina sem ég skýrði frá áður. Það var ég sem ekki féllst á þessa utandagskrárumræðu, og því ber að beina orðum sínum til mín en ekki hæstv. forsætisráðherra í því efni. Ef við einhvern er að sakast um stjórn þingsins er það við forseta þingsins.)

Hæstv. forseti. Með þínu leyfi:

„Við Íslendingar getum ekki látið bjóða okkur eitt þjóðarránið enn: Við létum það yfir okkur ganga, án þess að heyrðist múkk, að sameiginlegri auðlind okkar, fiskimiðunum umhverfis Ísland, væri stolið af okkur, af hinu fyrrum háa Alþingi, og hún afhent örfáum útvöldum sægreifum og/eða fjármagnseigendum, af „réttum“ pólitískum uppruna, á silfurfati; við létum það yfir okkur ganga, án þess að heyrðist múkk, að þjóðarbankarnir Búnaðarbanki og Landsbanki, væru einkavæddir, afhentir pólitískt réttum aðilum, á sama silfurfatinu, á spottprís, og nú eru þeir hinir sömu rétt völdu, milljarðamæringar; en ætlum við að láta það yfir okkur ganga, að enn ein þjóðareignin, sem malar gull og gersemi, verði afhent pólitískt réttvöldum, á sama fatinu, án þess að í okkur heyrist svo mikið sem múkk? Ég segi nei og skora á ykkur að gera slíkt hið sama.

Hér er ég auðvitað að tala um það fyrirkomulag sem hinir litlausu hafa ákveðið að hafa á sölu Símans.

Er ekki eitthvað brogað við þjóðfélag sem lætur allt þetta yfir sig ganga, án þess að rísa upp og mótmæla? Er ekki eitthvað að siðferðiskennd, að nú ekki sé talað um réttlætiskennd þeirra, sem ákveða að viðhafa aldrei annað en gömlu, úreltu, frá upphafi óréttlátu helmingaskiptaregluna, hvað sem tautar og raular?“

Hæstv. forseti. Þetta eru ekki mín orð. (Forseti hringir.) Þetta eru orð

(Forseti (HBl): Má ég biðja hv. þingmann …)

Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu á mánudaginn var.

(Forseti (HBl): …að ljúka máli sínu. Hv. þingmaður hefur lokið við sinn tíma, ég vil biðja hann að virða það og taka tillit til ábendingar forseta.)