131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umræða um störf einkavæðingarnefndar.

[13:07]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Meðan leyndarhjúpur umlykur fjármál stjórnmálaflokkanna og fjárhagsleg tengsl okkar stjórnmálamannanna verður hæstv. forsætisráðherra bara að una því að um þau séu teknar umræður á Alþingi dag eftir dag vegna þess að við það verður auðvitað einfaldlega ekki unað, hæstv. forsætisráðherra. Ég hef nýverið leitað eftir því við einkavæðingarnefnd að fá afhentar tillögur Morgans Stanleys um það hvernig standa beri að einkavæðingunni. Mér var neitað um þær tillögur. Ég óskaði eftir því að hæstv. forsætisráðherra staðfesti að þær tillögur verði í það minnsta lagðar fram að sölunni genginni.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort við getum ekki hætt á Alþingi að fjalla um kjaftasögur og gróusögur og hvort hann sé ekki tilbúinn til að beita sér fyrir því að við öll sem störfum í þessum sal birtum sambærilegar upplýsingar um okkur sjálf og fjárhagslega hagsmuni okkar og ráðherrar í ríkisstjórn Danmerkur gera nú, opnum þannig umræðuna, setjum allt upp á borðið og hreinsum andrúmsloftið, og hvort hann sé ekki líka tilbúinn að beita sér fyrir því að við setjum reglur um fjárhagslegan stuðning fyrirtækja við stjórnmálaflokka og felum Ríkisendurskoðun eftirlitshlutverk með því þannig að almenningur í landinu geti treyst því að annarleg sjónarmið ráði ekki ákvörðunum okkar.

Ef hæstv. forsætisráðherra getur lýst yfir stuðningi við þetta þurfum við ekki fremur að dvelja við þessi mál, heldur þurfum við einfaldlega að ganga í þá skyldu okkar að gera hreint fyrir okkar dyrum og birta þær upplýsingar sem almenningur á kröfu á.