131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umræða um störf einkavæðingarnefndar.

[13:13]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef hér orðið, fékk það núna hjá hæstv. forseta. Mér tókst hins vegar ekki að klára ræðu mína áðan, og ætla að gera það. Ég var þar kominn sem ég sagði að þetta hefðu ekki verið mín orð sem ég las hér upp, heldur orð sem Agnes Bragadóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifaði í Morgunblaðið á mánudaginn var.

Þau orð hafa valdið gríðarmiklum viðbrögðum í samfélaginu. Hvers vegna? Hvers vegna valda orð af þessu tagi svona miklum áhrifum í samfélaginu? Það er vegna þess að siðferðiskennd þjóðarinnar er misboðið. Það er vegna þess að þeir sem ráða í þessu landi hafa ekki farið eðlilega með sín völd við þessa einkavæðingu. Og það er vegna þess að fólki finnst ekki að menn komi hreint til dyranna.

Ég held að það sé best fyrir alla að menn geri það. En hér á Alþingi hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að þeir séu aldrei vanhæfir, þeir eigi ekki að gera grein fyrir sinni stöðu hvað varðar eigin hagsmuni og geti bara svo sem farið sínu fram eins og þeim dettur í hug hvern daginn, búið til nýjar reglur um það hvernig eigi að koma eignum ríkisins út í samfélagið í hvert skipti sem selja á nýtt ríkisfyrirtæki. Eru svo bara a.m.k. með ólund, svo að ekki sé meira sagt, þegar um það er spurt og reynt að fá fram hvernig í málum liggur, hvernig hagsmunatengsl eru o.s.frv. Væri bara ekki best fyrir alla að menn settu það upp á borðið þegar helstu ráðamenn þjóðarinnar eiga í hlut, vikju sér ekki undan þeirri umræðu? (Forseti hringir.)