131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:16]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er orðið vandlifað í þinginu. Hér eru ákveðnir fyrirspurnatímar til ráðherra. Nú er það orðið til siðs að spyrja alls konar spurninga ávallt í upphafi þingfunda. (Gripið fram í.) Óþægilegra. En það er bara svo að þeir sem eiga að svara hafa ekki tíma til að svara viðkomandi spurningum og eru þannig settir að þeir mega ekki taka til máls. Ég vil því fara þess á leit við forseta og forsætisnefnd að farið verði yfir þessa hluti þannig að það sé þó þannig að þeir sem svara eiga fyrirspurnum og ásökunum er beint að hafi þá tíma til að svara fyrir sig, en svo er alls ekki miðað við það form sem hér er.

Ég vil segja við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að skömmu eftir að ég kom í forsætisráðuneytið og vissi um þessa beiðni hófst vinna við skýrsluna og henni er nærri lokið. Það verður ekki löng skýrsla en ég vildi hins vegar taka fram að reglur um fjármál og fjárreiður stjórnmálaflokkanna byggja á samkomulagi sem varð milli stjórnmálaflokkanna árið 1998. Það er að sjálfsögðu ekki aðeins forsætisráðherra að beita sér fyrir nýrri löggjöf þar um. Þar verða allir stjórnmálaflokkarnir að koma að, þar á meðal Samfylkingin ef hún getur þá almennt komið að nokkrum sköpuðum hlut, sem ég hef vissar efasemdir um. Ég mun að sjálfsögðu svara þessu og það hefur aldrei neitt annað staðið til og það er alger óþarfi hjá hv. þingmanni að segja það sem hún sagði hér og mér finnst það líka alger óþarfi hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar að vera svo ósmekklegir að blanda fjármálum stjórnmálaflokkanna almennt, þar á meðal sínum eigin flokki, við söluferli Símans. Hvað gengur eiginlega á? Hvers vegna er verið að gera alla hluti tortryggilega? Hafa þessir hv. þingmenn vonda samvisku sjálfir?