131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[13:23]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Sá atburður hefur gerst, sem kemur ekki oft fyrir og menn reyna að hafa mjög í hófi, að forseti hefur vítt þingmann úr forsetastóli. Um það held ég að við eigum ekki að ræða frekar, það verður að taka því þegar forseti tekur sér það vald.

Forsetar Alþingis hafa frá upphafi Alþingis hins nýja haft ýmsan hátt á afskiptum sínum af þingmönnum og afskiptum sínum af þeim málum sem þar eru rædd. Sá forseti sem mynd er af þarna til hægri og er einna frægastur forseta þingsins, þó að forsetatitill hans sé reyndar sprottinn af öðru, hafði þann hátt á að stjórna þinginu fyrst og fremst og þeir sem leita í Alþingistíðindum að ræðuhöldum hans fara í geitarhús að leita ullar meðan hann var forseti. Það var siður á þeim tíma og þarf ekki að vera fyrirmynd þeirra forseta sem nú starfa.

Rétt er þó í þessu sambandi að lesa þetta úr 89. gr. um þingvíti, með leyfi forseta:

„Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert“ …“

Við getum svo velt því fyrir okkur hvort það var þetta sem gerðist áðan og rétt að hver geri það fyrir sig. Ég vil hins vegar benda forseta Alþingis líka á, úr því að þingsköpin eru hér til umræðu og hafa verið bæði í gær og í dag af hans hálfu, á reglu sem nefnd er í 8. gr. þingskapa og er svona, með leyfi forseta:

„Nú vill forseti taka þátt í umræðum frekar en forsetastaða hans krefur og víkur hann þá á þingmannabekk en varaforseti tekur forsetasæti á meðan.“

(Forseti (HBl): Það hefur forseti gert.)