131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Staða íslenska kaupskipaflotans.

[13:47]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. málshefjanda skilaði starfshópur á vegum samgönguráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Siglingastofnunar skýrslu í desember sl. um skráningu kaupskipa á íslenska skipaskrá. Starfshópurinn var skipaður í kjölfar áskorana frá hagsmunaaðilum um að skapa kaupskipaútgerð hagstæðari rekstrarskilyrði til samræmis við nágrannalönd Íslands og sporna þannig við því að þekking og störf flyttust úr landi.

Í skýrslu þessa starfshóps er farið yfir þróun síðustu ára, greint frá afstöðu hagsmunaaðila og gerð úttekt á skattalegu umhverfi kaupskipaútgerða og farmanna hér á landi. Í skýrslunni er jafnframt að finna yfirlit yfir alþjóðlegar kaupskipaskrár, aðgerðir nágrannalanda okkar á síðustu árum og samantekt á reglum Evrópusambandsins um ríkisaðstoð til flutninga á sjó. Að lokum eru í skýrslunni reifaðar í dæmaskyni hugsanlegar leiðir til úrbóta frá ólíkum markmiðssetningum ásamt vangaveltum um kosti og galla.

Það kemur fram í þessari skýrslu að ef sett yrði á fót íslensk alþjóðleg kaupskipaskrá er óvíst hvaða áhrif slík skrá hefði fyrir atvinnugreinina og íslenska farmenn. Ljóst er að slík skrá ein og sér hefði engin áhrif og henni þyrftu að fylgja ríkisstyrkir af einhverju tagi í samræmi við þær takmörkuðu heimildir sem til staðar eru um ríkisaðstoð til sjóflutninga.

Önnur helstu atriði í niðurstöðum skýrslu starfshópsins eru eftirfarandi, virðulegi forseti:

1. Ef gera á íslenska kaupskipaskrá samkeppnishæfa við erlendar alþjóðlegar kaupskipaskrár í okkar nágrannalöndum verður að stíga stórt skref.

2. Það er hart barist fyrir því að fá kaupskip á skrá og nágrannaþjóðirnar undirbjóða hver aðra í stórum stíl í því skyni.

3. Það er erfitt að greina ástæður fækkunar íslenskra skráðra skipa og íslenskra farmanna á síðustu árum þó að nefna megi breytingar í verslun, alþjóðavæðingu, samkeppni frá ýmsum alþjóðlegum skipaskrám, samkeppni frá erlendum farmönnum sem selja vinnu sína á lægri kauptöxtum, betri tækni og skipulag í atvinnugreininni.

4. Talið er að fækkun íslenskra farmanna sé ekki sérþróun hér á landi, heldur hluti af alþjóðlegri þróun síðustu áratuga. Innlendir farmenn í áhöfnum nágrannaríkja okkar eru fyrst og fremst yfirmenn en undirmenn flestir erlendir.

5. Breytingar á skattalögum, t.d. varðandi stimpilgjöld, sem ráðist hefur verið í hér á landi á síðustu árum hafa ekki komið í veg fyrir áframhaldandi fækkun íslenskra skráðra skipa og íslenskra farmanna.

Umrædd skýrsla var hugsuð sem áfangaskýrsla og hefur starfshópurinn ekki formlega lokið störfum. Í þessu flókna máli er mikilvægt að byrja á því að skilgreina þann vanda sem er verið að tala um og hvaða markmið það eru sem menn stefna að. Sú þróun sem rætt hefur verið um að snúa þurfi við felst fyrst og fremst í fækkun íslenskra farmanna á síðustu áratugum og þeirri hættu að sú þekking sem þeir hafa skapað hverfi úr landi. Út frá markmiðssetningu er því mikilvægt að hafa í huga að í Noregi, Danmörku, Færeyjum og víðar hefur tilkoma alþjóðlegra kaupskipaskráa með samhliða ríkisaðstoðarkerfum ekki endilega leitt til fjölgunar innlendra farmanna á kaupskipunum. Almenn þróun hefur verið í hina áttina á síðustu árum og eru margar ástæður að baki því og tengjast m.a. alþjóðlegri samkeppni í greininni og þeim punktum sem ég fór yfir hér áðan.

Tilgangurinn með öflugum, alþjóðlegum kaupskipaskrám í nágrannalöndum okkar virðist fyrst og fremst vera að efla kaupskipaútgerð sem atvinnugrein í viðkomandi löndum, þ.e. að fá sem flest kaupskip á skrá óháð mönnun þeirra. Þessi markmið nágrannalanda okkar eru því ekki í samræmi við þau markmið sem aðallega hafa verið í umræðunni hér á landi, þ.e. að reyna að fjölga íslenskum farmönnum og varðveita þekkingu þeirra. Ríkisstyrkirnir sem fylgja hinum alþjóðlegu kaupskipaskrám í nágrannalöndum okkar beinast fyrst og fremst að viðkomandi kaupskipaútgerðum en ekki farmönnunum. Það er ekki unnt að halda því fram að rekstur íslenskra kaupskipaútgerða í dag sé það illa á sig kominn að hann þurfi sérstaklega á ríkisstyrkjum að halda. Ríkisaðstoð til kaupskipaútgerða er líkleg til að vekja upp spurningar frá öðrum greinum atvinnulífsins.

Það þarf að hafa það í huga vegna ákvæða EES-samningsins að það er ekki unnt að einangra ríkisaðstoð við innlenda farmenn eða innlendar útgerðir eingöngu. Því er ekki borðleggjandi að íslensk, alþjóðleg kaupskipaskrá með samþykktu ríkisaðstoðarkerfi muni bæta hag íslenskra farmanna. Burt séð frá því er óvíst hvaða áhrif stofnun slíkrar kaupskipaskrár kunni að hafa á atvinnugreinarnar þar sem mikil samkeppni er innan Evrópu og víðar um að fá kaupskip á þær skrár sem fyrir hendi eru.