131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Staða íslenska kaupskipaflotans.

[13:53]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér heilsast fánar framandi þjóða / hér mæla skipin sér mót, sagði þjóðskáldið í kvæðinu sínu Við höfnina. Þetta eru orð að sönnu. Fánar framandi þjóða blakta á flestum, og bráðum öllum, skipum sem færa varninginn heim eða út. Þróunin hefur verið ljós lengi. Ég man eftir mörgum fundum í samgöngunefnd þingsins á árum áður þar sem rætt hefur verið um þetta vandamál. Niðurstaða stjórnvalda hefur alltaf verið sú að gera hlutina ekki eins og þær þjóðir sem hafa haldið sínum flota, hvað þá eins og þær sem hafa fengið aukinn fjölda skipa undir sitt flagg. Þær höfum við kallað hentifánaþjóðir — og það er ekki heiðursnafnbót.

En fækkun flutningaskipa á Íslandi eða undir íslenskum fána heldur áfram og þó að Færeyingar og aðrir Norðurlandabúar hafi sett reglur sem virðast duga, stendur ekki til að gera slíkt hér. Það liggja fyrir tillögur en eftir að hafa hlustað á hæstv. ráðherra get ég ekki látið mér detta í hug að það séu niðurstöður á leiðinni sem verði til þess að breyta þeirri þróun sem er í gangi núna.

Ég tel reyndar að þetta mál sé búið að vera það lengi til umfjöllunar að stjórnvöld þurfi að fara að klára það. Ef niðurstaðan er að gera ekki neitt er miklu betra að menn viti það, heldur en að menn haldi sífellt áfram að reyna að basla við það að koma að tillögum og hugmyndum um það hvernig megi koma skipum undir íslenskt flagg, og svo er ekkert bara gert með það. Stjórnvöld virðast ekki hafa áhuga á málinu.

Ég hef reyndar heyrt að hæstv. samgönguráðherra hafi miklu meiri áhuga á að gera breytingar hvað þessa hluti varðar en hæstv. fjármálaráðherra og að núna standi bókstaflega yfir togstreita milli ráðuneyta í þessu máli.