131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Staða íslenska kaupskipaflotans.

[13:55]

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Það eru auðvitað gömul sannindi og ný að eyþjóð, og ekki hvað síst þjóð sem lifir á eyju í miðju Atlantshafi, getur varla lifað sem sjálfstæð þjóð án öflugs kaupskipaflota og góðrar farmannastéttar. Við stöndum frammi fyrir þeirri ótrúlegu staðreynd að í dag er ekkert kaupskip í millilandasiglingum skráð í íslenskri skipaskrá þrátt fyrir að við séum mjög háð siglingum um flesta aðdrætti og útflutning og að hér séu rekin mjög öflug skipafélög sem gera út kaupskip í siglingum víða um heimsins höf.

Við hljótum að leita leiða til að breyta þessari stöðu. Í því sambandi getum við litið til nágrannalanda okkar, Norðurlandanna, Breta og Íra, og lært af þeim en þeir hafa allir lagt mikla áherslu á þessa atvinnugrein og þeir hafa náð miklum árangri, bæði til fjölgunar atvinnutækifæra og aukinna gjaldeyristekna.

Sem dæmi má nefna, og fram hefur komið, eru aðgerðir Íra sem tóku upp mjög öfluga, alþjóðlega skipaskrá árið 2002 með verulegum hliðarráðstöfunum. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa þar. Skipastóllinn hefur aukist og atvinnutækifærum fjölgað mikið. Einnig hafa menn nefnt dæmi um Færeyinga sem hafa sett upp alþjóðlega skipaskrá með verulegum skattafslætti og það hefur gert þeim kleift að halda í nær öll sín kaupskip. Það má nefna að þar eru íslensk skip skráð þurrleiguskráningu, eflaust vegna þess að það er þeim hagstæðara en að viðkomandi skip séu skráð hér á landi.

Breyting á skattumhverfi þessarar atvinnugreinar virðist dæmi um aðgerð í þessu sambandi og því má telja líklegt að slík aðgerð hér mundi snúa þróuninni við, afla okkur aukinna tekna, fjölga atvinnutækifærum og styrkja grundvöll kaupaskipaútgerðarinnar. Það er einn af þeim kostum sem ég tel að við þurfum að skoða alvarlega ásamt ýmsu fleiru sem fram hefur komið og bent hefur verið á, m.a. í þeirri skýrslu sem hér hefur verið nefnd.