131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Endurgreiðslur gjalda íslensk skipaiðnaðar.

710. mál
[14:19]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að koma hér upp til að þakka hv. þingmanni fyrir að taka málið upp og svo til að þakka fyrir yfirlýsingu hæstv. ráðherra sem var mjög jákvæð. Ég vil meina að ég hafi aldrei heyrt jákvæðari yfirlýsingu hvað varðar stuðning við skipasmíðaiðnaðinn á Íslandi. Ég ætla sannarlega að vona að staðið verði við að ganga það langt í stuðningi við íslenskan skipaiðnað að menn geti staðið jafnfætis þeim sem eru hérna í kringum okkur, því að þannig hefur það ekki verið í gegnum tíðina. Maður hefur hlustað á yfirlýsingar ráðamanna um að við hefðum ekki efni á slíkum stuðningi. Það er hins vegar svolítið undarlegt vegna þess að þeir sem skoðuðu þetta mál einu sinni komust reyndar að þeirri niðurstöðu að allt að 40% stuðningur við skipaiðnað skilaði sér og meira en það sem hagur fyrir þjóðina þannig að langt má ganga, því þessi iðnaður veltir upp á sig miklum öðrum iðnaði og atvinnutækifærum.