131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Endurgreiðslur gjalda íslensk skipaiðnaðar.

710. mál
[14:21]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er aldeilis gott þegar ráðherrann er tilbúinn til að lagfæra stöðu skipaiðnaðarins og hefði verið þörf á því fyrr. En betra er seint en aldrei og því ber auðvitað að fagna að nú skuli eiga að lagfæra stöðuna og styðja skipaiðnaðinn með sambærilegum hætti og gert er í öðrum löndum. Það hefur ekki verið vansalaust hjá okkur hvernig þróunin hefur verið í skipabyggingum og við höfum auðvitað verið að missa stóran hluta af þekkingunni úr greininni og missa þar af leiðandi verkefni, viðhaldsverkefni sem nýbyggingarverkefni, því að ef engin nýbygging er til þá er hætt við að viðhaldinu hraki einnig. Þetta hangir nefnilega saman og hefur mikil áhrif til atvinnusköpunar og atvinnuumsetningar í landinu og þessu fylgja margfeldisáhrif.