131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Sjúkrahússbyggingar í Fossvogi.

512. mál
[14:34]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vildi fá að blanda mér aðeins inn í umræðuna um framtíð sjúkrahússbyggingarinnar í Fossvoginum sem hér er til umræðu. Ég tek undir þær hugmyndir sem hér hafa komið fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra um hvernig nýta mætti það húsnæði. Það er alveg ljóst að varðandi öldrunarþjónustuna þarf að bæta talsvert þar úr. Það eru biðlistar og legurými vantar. Það hefur komið fram hjá ráðherra að það er hugsanlega hægt að koma fyrir 300 legurýmum þarna og hugsanlega væri hægt að hafa líka endurhæfingarrými á spítalanum þannig að greinilega skapast miklir möguleikar við flutning spítalans alls að Hringbraut.

En það væri ágætt ef ráðherrann gæti upplýst um hvaða hugsanlega verð væri hægt að fá fyrir það húsnæði sem spítalinn á. Mér heyrðist ráðherrann vera að koma inn á að það yrði selt.