131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Geðheilbrigðisþjónusta í fangelsum.

561. mál
[14:48]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að vekja máls á þessu máli og ágætt svar hæstv. heilbrigðisráðherra.

Á undanförnum missirum hefur verið talsverð umræða um málefni fanga og er það vel, einnig starfsmanna fangelsanna en þeir sinna auðvitað mjög mikilvægu starfi sem ber að virða og hlúa að engu síður en innra starfi í fangelsunum. Eins og kom fram áðan í umræðunni þarf hið innra starf í fangelsunum að vera mjög uppbyggilegt og raunar þarf að vera um betrunarvist að ræða. Hér kom fram í svari hæstv. ráðherra sem hefur sýnt þessum málaflokki mikinn áhuga að fjármagn er að aukast í geðheilbrigðisþjónustu.

Það ber að þakka og einnig ber að styrkja samstarf Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, réttargeðdeildarinnar að Sogni og fangelsisins að Litla-Hrauni. Þetta eru stofnanir sem eiga og geta mjög vel unnið saman. (Forseti hringir.)