131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Geðheilbrigðisþjónusta í fangelsum.

561. mál
[14:49]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að bera fram þessa fyrirspurn í dag og jafnframt þakka ég hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir hvað hann hefur mikinn skilning á þessum málum. Eins ber að fagna auknum skilningi fangelsisyfirvalda yfirleitt því að þar finnst mér mikil breyting vera orðin á, mjög jákvæð.

Ég fagna því einnig að staða geðlæknis við Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur nú verið auglýst og það mun nýtast fangelsinu að Litla-Hrauni afskaplega vel, og Sogni líka, og allt mun þetta geta unnið saman.

Ég vil líka taka undir með þeim sem hafa rætt um skort á úrræðum varðandi vímuefnaneyslu. Það er mjög mikilvægt að taka á þeim málum strax í upphafi um leið og fangi er vistaður, að hann fari þá strax í meðferð. Það hlýtur að spara þegar til lengri tíma er litið.