131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Geðheilbrigðisþjónusta í fangelsum.

561. mál
[14:55]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og ég þakka fyrir þá almennu umræðu sem hefur verið um þetta mál. Það er rétt að það hefur verið í opinberri umræðu að undanförnu í meira mæli en áður hefur verið, og er það vel.

Ég endurtek að ég bind miklar vonir við þá auknu þjónustu sem aukin geðlæknaþjónusta hefur í för með sér á Litla-Hrauni. Við munum að sjálfsögðu fylgjast með, eins og kom fram í svari mínu, hvaða þjónusta hentar best í fangelsunum. Skírskota ég þá til þess tillöguflutnings sem var nefndur hér.

Varðandi svo legupláss utan fangelsa þegar alvarlegir hlutir steðja að höfum við átt viðræður við forsvarsmenn geðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss um þau mál. Þær viðræður fóru fram nýverið og við munum reyna að fylgjast með því eftir föngum að þar verði aðgangur. Það er alveg rétt að við þurfum að marka þessari starfsemi stað og vonandi kemur sá dagur að við getum byggt við á Sogni. Það eru áform þar um og það er ein af þeim leiðum sem til greina koma í því máli.

Þó að ég geti ekki sagt um það á þessari stundu hvenær það verður er það eitt af mögulegum úrræðum en ég legg áherslu á það í lokin að allar þær stofnanir sem vinna á þessu sviði hafi sem best samstarf.