131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Viðbrögð við faraldri.

637. mál
[14:57]

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að reglulega berast okkur mjög slæmar, oft og tíðum skelfilegar, fréttir erlendis frá um svokallaða fuglaflensu. Bara núna í dag kom frétt í Ríkisútvarpinu sem ber yfirskriftina: „Fuglaflensa gæti banað 70 milljónum“ og ég vildi fá að lesa hana, með leyfi forseta:

„Fuglaflensa gæti orðið heimsfaraldur á skömmum tíma og dregið allt að 70 milljónir manna til dauða, 70% þeirra sem smitast. Þetta kom fram í máli Peters Dohertys, prófessors í Melbourne, og handhafa nóbelsverðlauna í læknisfræði, á ráðstefnu í Lyon í gær. Doherty sagði þetta mat Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Fuglaflensa hefur þegar valdið dauðsföllum í Austur-Asíu.

Doherty segir hætt við að veirur fuglaflensu og mannaflensu nái saman, tengist með erfðavísum, þá sé voðinn vís. Hann bendir á að liðlega 40 milljónir manna hafi látist úr banvænni inflúensu 1918, spænsku veikinni svonefndu, hún hafi farið sem eldur í sinu um heiminn þótt samgöngur væru miklu stopulli þá en nú.“

Einnig er frétt á mbl.is sem ég ætla ekki að lesa en hún gengur í stuttu máli út á það að 18 lönd fengu fyrir mistök send sýni með fuglaflensuveiru. Þeim var gert skylt eðli máls samkvæmt að eyða þessu en þetta segir okkur sem við vitum að þrátt fyrir að við höfum verið svo lánsöm, og vonandi verðum við það alltaf, að fá ekki svona skaðvald hingað til lands er ekkert öruggt í þessu efni, því miður. Það er því ástæðan, virðulegi forseti, að ég ber fram eftirfarandi spurningar til heilbrigðisráðherra og ég tel — og ég held að allur þingheimur og þjóðin sé sammála um það — að skynsamlegt sé í málum sem þessum að vona hið besta en búa sig undir það versta. Þess vegna ber ég fram eftirtaldar fyrirspurnir:

1. Er til viðbragðsáætlun fyrir skæðan faraldur eins og fuglaflensu? Ef ekki, er unnið að slíkri áætlun nú?

2. Eru til birgðir inflúensulyfja og bóluefna til að bregðast við því ástandi sem skapast getur og við hvaða forsendur miðast áætlanir?

3. Beinist viðbúnaður eingöngu að heilbrigðisstéttum eða hefur almenningur verið upplýstur um viðeigandi viðbúnað?

4. Hverjar teljast eðlilegar sóttvarnir heimila og þykir rétt að þau komi sér upp lyfjabirgðum?