131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Viðbrögð við faraldri.

637. mál
[15:05]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Eins og hér kom fram hefur í heilt ár verið unnið með viðbragðsáætlun gagnvart hugsanlegri fuglaflensu. Maður heyrir að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur málið undir smásjánni.

En ég vildi draga fram að fyrir Alþingi liggur núna frumvarp sem kveður á um að Lyfjastofnun geti heimilað tímabundna dreifingu lyfs án markaðsleyfis, þ.e. ef á leiðinni er faraldur. Þannig er einnig í undirbúningi lagasetning sem lýtur m.a. að viðbrögðum við slíkum vandamálum.

Ég vildi gjarnan nýta tækifærið, af því að þetta mál er mjög ógnvekjandi þótt maður vilji ekki mála skrattann á veginn, og spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Þar sem búið er að vinna að viðbragðsáætlun í heilt ár þá hljóta menn að ganga út frá einhverri tölu varðandi það hvað geti gerst í versta tilfelli. Ég hefði gjarnan viljað heyra ráðherra segja frá því, ef hann treystir sér til: Hver er versta hugsanleg staða á Íslandi, hve margir gætu fallið hér?