131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Viðbrögð við faraldri.

637. mál
[15:09]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson talaði um kom fram í fréttum í morgun að nýr heimsfaraldur gæti banað allt að 70 milljónum manna. Ég skoðaði jafnframt heimasíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar en hún fer aðeins varlegar í þetta og segir að 2–50 milljónir manna gætu legið í valnum eftir skæðan faraldur af völdum veira en hins vegar er erfitt að spá um umfang slíks.

Leiddar hafa verið líkur að því að í verstu tilvikum geti allt að 20–50% hverrar þjóðar smitast, sem þýðir að samfélögin nánast lamast þegar faraldurinn gengur yfir. Þess vegna er mikilvægt að verja heilbrigðisstarfsfólk sérstaklega til að halda uppi nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og jafnframt þá sem sinna öryggisþjónustu.

Hins vegar má ljóst vera að ef veiran kemur mun það koma mjög mismunandi niður á fólki. Það hefur verið vísað í spænsku veikina fyrr í þessari umræðu. Við verðum að hafa það í huga að heilbrigðisástand þjóðarinnar var mun verra á þeim tíma. Í dag er húsnæði, hreinlæti og ástand fólks allt annað en var þá. Það ræður m.a. því hve móttækilegur líkaminn er. Hins vegar hafa heilbrigðisyfirvöld staðið sig vel í að undirbúa þetta mál.