131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umboðsmenn sjúklinga.

641. mál
[15:26]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Hér er á ferðinni þörf fyrirspurn og svar hæstv. ráðherra veldur mér eilitlum vonbrigðum. Skýringar hans liggja í því að yfirstjórn Landspítalans tók til þeirra ráða að skera niður kostnað á þessum vettvangi. Það segir okkur auðvitað að fulltrúi sjúklinga má aldrei heyra beint undir yfirstjórn viðkomandi stofnunar. Hann á auðvitað að vera hliðsettur og vera fulltrúi sjúklinganna með beinum hætti sem eru venju samkvæmt aldrei kvartsárir. Ég vænti þess og vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra endurskoði hug sinn og setji á stofn þetta embætti, ef embætti mætti kalla, á nýjan leik og það heyri beint undir ráðuneytið en ekki yfirstjórn spítalans. Það er auðvitað hið eina rétta í stöðu mála.