131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umboðsmenn sjúklinga.

641. mál
[15:29]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og þeim sem tekið hafa þátt í umræðunni. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem ég svaraði í upphafi. Ég legg áherslu á að meðan embættin eru ekki fyrir hendi er lögvarinn réttur sjúklinga til að kvarta, heilbrigðisstarfsfólk hefur skyldu til að koma þeim kvörtunum á framfæri. Landlæknisembættið hefur með höndum að rannsaka hvert atvik í því sambandi þannig að sú þjónusta er fyrir hendi og á að vera fyrir hendi. Hins vegar reyndist þetta vel. Það væri æskilegt að geta gert þetta en því miður hafa önnur verkefni verið tekin fram yfir sem við höfum þurft að taka í forgang.

Ef við gætum tekið þetta upp aftur væri auðvitað til athugunar hvernig formið ætti að vera. Ég tek við öllum ábendingum í því efni, þá þurfum við auðvitað að fara yfir slíkt. Ég tel að upplagt sé fyrir þá nefnd sem endurskoðar lögin um heilbrigðisþjónustu að fara yfir þetta og tækifæri til þess.

Varðandi kostnaðarþátttöku sjúklinga í félagsráðgjöf í Landspítalanum hafa engar tillögur um það komið upp á mitt borð. Ég veit að Landspítalinn er að fara yfir gjaldskrár sínar en tillögur um þetta hafa ekki komið til mín.