131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Lóðaúthlutunarreglur Reykjavíkurborgar.

718. mál
[15:45]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ráðuneyti mitt hefur á undanförnum árum úrskurðað um allmargar stjórnsýslukærur sem varða lögmæti úthlutunar sveitarfélaga á byggingarlóðum. Flest hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu komið við sögu í þessum málum og það verður að segjast eins og er að oft hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir við framkvæmd úthlutunar.

Ráðuneytið hefur einnig beitt sér fyrir því að sveitarfélög setji sér reglur um lóðaúthlutanir með það fyrir augum að tryggja réttláta og gagnsæja málsmeðferð. Meðal annars hefur verið bent á nauðsyn þess að vanda alla málsmeðferð til að tryggja að ekki vakni grunsemdir um að stjórnmálaskoðanir, vinfengi, fjölskyldutengsl eða sambærileg sjónarmið hafi áhrif á möguleika umsækjenda við úthlutun lóða.

Segja má að afskipti félagsmálaráðuneytisins af þessum málum byggist á því sjónarmiði að almenningur hljóti að eiga kröfu á því að við úthlutun byggingarlóða, sem geti m.a. haft verulegt fjárhagslegt verðmæti við endursölu eins og fram kom í máli hv. þingmanns, sé öll málsmeðferð og undirbúningur vönduð eins og frekast er kostur.

Að mínu mati, hæstv. forseti, hafa umtalsverðar úrbætur átt sér stað á þessu sviði hjá flestum sveitarfélögum en því er samt ekki að neita að skoðanir eru afar ólíkar á því hvaða aðferðir henti best við slíka úthlutun og ekki áhlaupaverk að samræma framkvæmd nema þá hugsanlega með lagasetningu.

Hæstv. forseti. Að mínu mati er enginn vafi á því að reglur Reykjavíkurborgar uppfylla þær formkröfur sem m.a. koma fram í umræddum úrskurðum ráðuneytisins að því leyti að það er alveg skýrt hvaða skilyrði umsækjendur þurfa að uppfylla til að eiga möguleika á að fá úthlutað lóð. Menn geta hins vegar deilt um réttmæti einstakra skilyrða í reglunum og þá, hæstv. forseti, að mínu mati sérstaklega skilyrði um búsetu í Reykjavík.

Samkvæmt auglýsingum Reykjavíkurborgar og skilmálum um lóðaúthlutanir sem m.a. koma fram á umsóknareyðublaði þurfa umsækjendur um byggingarlóð við Lambasel í Reykjavík að uppfylla eftirfarandi fimm skilyrði til að fá úthlutað byggingarlóð:

1. Umsækjandi skal hafa átt lögheimili í Reykjavík í a.m.k. eitt ár frá ársbyrjun 2000.

2. Umsækjandi hafi ekki fengið úthlutað lóð hjá Reykjavíkurborg eftir ársbyrjun 2000.

3. Umsækjandi skal vera fjár síns ráðandi.

4. Umsækjandi má ekki vera í vanskilum með opinber gjöld.

5. Umsækjandi skal standast greiðslumat upp á 25 millj. kr.

Dregið verður úr umsóknum og umsækjendur fá svokallað valnúmer. Aðeins þeir sem fá valnúmer þurfa að skila inn gögnum um að þeir uppfylli framangreind skilyrði. Umsækjendur velja sér síðan lóð í þeirri röð sem valnúmer þeirra segir til um.

Ýmsar leiðir, hæstv. forseti, standa sveitarfélögum opnar við val á umsækjendum um byggingarlóðir eins og áður sagði. Einfaldasta leiðin og sú sem að mati ráðuneytisins tryggir best jafnræði þeirra umsækjenda sem uppfylla grunnskilyrði er að láta hlutkesti ráða niðurstöðu. Sú leið hefur verið farin í Reykjavík líkt og í fleiri sveitarfélögum og almennt gefið ágæta raun. Af þeim skilyrðum sem umsækjendur um lóðir við Lambasel þurfa að uppfylla eru fjögur alvanaleg í reglum sveitarfélaga sem úthluta byggingarlóðum. Það eru skilyrði 2–5. Það er aðeins fyrsta skilyrðið sem kann að orka tvímælis lagalega, þ.e. að umsækjendur þurfa að hafa átt lögheimili í Reykjavík á tilteknu tímabili. Slíkt skilyrði vekur, hæstv. forseti, óneitanlega upp spurningar um jafnræði eins og hv. þingmaður bendir réttilega á. Einhverjir gætu vafalaust haldið því fram að með þessu sé Reykjavíkurborg að mismuna landsmönnum eftir búsetu. Almennt má a.m.k. halda því fram að skilyrði af þessum toga séu ekki alls kostar heppileg og það væri ekki til þess fallið að ýta undir eðlilega byggðaþróun hér á landi ef öll sveitarfélög viðhefðu slík skilyrði.

Hvers eiga t.d. námsmenn utan af landi að gjalda sem aðeins hafa skráð aðsetur í Reykjavík? Sama má segja um ungt fólk sem ekki hefur átt þess kost að fá lóð í Reykjavík og hefur fyrir vikið freistað gæfunnar í nágrannasveitarfélögunum. Höfuðborgarsvæðið er að sjálfsögðu, hæstv. forseti, eitt þjónustu- og atvinnusvæði og það er að mínu mati ástæðulaust fyrir sveitarfélögin á þessu svæði að reisa einhvers konar múra sem hindra flutninga innan svæðisins.