131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat.

[10:37]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Herra forseti. Jarðfræðirannsóknir við Kárahnjúka hófust sumarið 1992 og hafa verið stundaðar öll árin síðan, en frá og með árinu 1999 hafa þær verið unnar í nánu samstarfi við stífluhönnuði. Mun óhætt að fullyrða að þessar jarðfræðirannsóknir séu umfangsmestu undirbúningsrannsóknir vegna mannvirkjagerðar hér á landi. Allt fram til ársins 2002 ríkti enn óvissa um hvort og hvenær af framkvæmdum yrði og var því leitast við að halda öllu jarðvegsraski í lágmarki sem vissulega takmarkaði nokkuð hve langt var unnt að ganga við kortlagningu berggrunns á svæðinu. (Gripið fram í: … umhverfisvernd.)

Í tengslum við mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar sumarið 2001 komu fram athugasemdir frá Grími Björnssyni jarðeðlisfræðingi og Guðmundi heitnum Sigvaldasyni jarðfræðingi sem báðir drógu í efa nægjanlegt öryggi stíflu við Kárahnjúka, m.a. vegna þess hve mikið væri af sprungum á svæðinu og jafnvel hætta á eldsumbrotum. Landsvirkjun óskaði eftir áliti þeirra jarðfræðinga sem staðkunnugastir voru og stundað höfðu rannsóknir á svæðinu í um 10 ár og skiluðu þeir í samvinnu við hönnuði stíflumannvirkja greinargerð þar sem flestar athugasemdir Gríms og Guðmundar voru hraktar. Sérfræðingar á vegum Alcoa yfirfóru einnig þessi gögn og komust að sömu niðurstöðum. Vegna ábendingar Gríms um hugsanlegt landsig af völdum Hálslóns var Freysteini Sigmundssyni jarðeðlisfræðingi falið að leggja mat á sigið og varð niðurstaða hans að landsig gæti numið um 30 sm á nokkrum áratugum. Grímur benti einnig á mikilvægi þess að jarðhiti á svæðinu yrði rannsakaður ásamt tengslum hans við sprungur og leg.

Eftir að jarðlög höfðu verið fjarlægð af stíflusvæði Kárahnjúkastíflu og svæði þar í grennd var auðveldara um vik að greina hugsanlegar bergsprungur. Var þegar hafist handa við nákvæma kortlagningu á jarðfræðistíflu grunnsins og nánasta umhverfis hans árið 2003. Á síðasta ári var samið við Íslenskar orkurannsóknir um að fyrirtækið rannsakaði útbreiðslu jarðhita á Hálslónssvæðinu, tengsl jarðhitans við sprungur og ályktanir sem af því mætti draga. Við þá vinnu fundu sérfræðingar merki um tengsl jarðhita við misgengi sunnarlega á Sauðárdal og mátti rekja misgengið til norðurs inn í námu sem búið var að opna rétt við Sauðá í um 5 km fjarlægð frá Kárahnjúkastíflu þar sem það virtist deyja út. Jarðfræðingarnir telja nú að þetta misgengi sé hluti af austurjaðri sprungusveims eldvirka beltisins sem áður var talið liggja um 12–15 km vestan við Kárahnjúka.

Þegar þessar niðurstöður lágu fyrir var myndaður vinnuhópur vísindamanna frá þeim stofnunum sem sinna rannsóknum á jarðskjálftum og jarðskorpuhreyfingum á Íslandi til að yfirfara og endurmeta hönnunarforsendur fyrir stíflurnar þrjár við Hálslón. Hafa þeir nýlega skilað skýrslu um hættumat vegna hugsanlegra jarðskjálfta og misgengis við myndun Hálslóns. Í framhaldi af sérfræðiskýrslu þessari munu verkfræðiráðgjafar yfirfara hönnun á stíflum með hliðsjón af hugsanlegum breytingum á hönnunarforsendum og grípa til viðeigandi ráðstafana eftir því sem ástæða er til. Ekkert hefur enn komið fram sem bendir til verulegra breytinga á stífluhönnun en búast má við ýmsum minni háttar endurbótum og viðbótarvarnaðaraðgerðum.

Jarðfræðiathuganir á sjálfu stíflusvæði Kárahnjúkastíflu hafa á framkvæmdatímanum leitt í ljós fjögur misgengi en aðeins eitt þeirra var þekkt áður en framkvæmdir hófust. Taka ber fram að við hönnun stíflunnar var gert ráð fyrir sprungum og misgengjum sem meðhöndla þyrfti í samræmi við viðurkenndar aðferðir. Hefur hönnun á undirstöðum stíflunnar verið breytt í samræmi við þessar upplýsingar eins og venja er að gera við slíkar aðstæður.

Herra forseti. Ég hef lauslega gert ráð fyrir stöðu rannsókna á jarðfræði við Kárahnjúka og viðbrögðum Landsvirkjunar við nýjum upplýsingum um jarðfræði í næsta nágrenni Hálslóns sem fram hafa komið eftir að framkvæmdir hófust. Rétt er að benda á að jarðfræðilegum rannsóknum við stór mannvirki eins og hér um ræðir lýkur ekki fyrr en byggingu er lokið. Eins og fram kemur að framan er unnið að því að aðlaga hönnun mannvirkja að nýjum jarðfræðiupplýsingum þannig að áhætta verði óbreytt. Slíkt hefur ávallt verið gert við allar stærri virkjanir hér á landi.

Ég hef haldið fund með sérfræðingum Landsvirkjunar, hönnuðum og jarðfræðingum þar sem farið hefur verið ítarlega yfir þessi mál. Vissulega er rétt að misgengiskerfi á svæðinu er viðameira en áður hefur verið talið sem leitt hefur til breyttrar hönnunar á grunni Kárahnjúkavirkjunar og í öðru lagi eru misgengi nokkru yngri en áður hafði verið talið og kunna að geta hreyfst við lónfyllingu eða eldvirkni í nærliggjandi eldstöðvakerfum.